145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:55]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að gera athugasemdir við hv. formann fjárlaganefndar. Ég frábið mér að tillaga okkar varðandi fangelsismál sé yfirboð. Páll Winkel hefur sagt að það vanti 80 millj. kr. sem eru nauðsynlegar til að halda óbreyttri starfsemi. Hann hefur sagt að það sé líklegt að hann þurfi að loka tveimur fangelsum og segja upp fangavörðum.

En varðandi vegagerðina er það alveg klárt mál að hér hafa ákvarðanir verið teknar eftir á eins og við þekkjum og voru teknar hér í sumar og þurfti svo að koma inn í fjáraukalög. Þannig að málaflokkurinn hefur verið vanfjármagnaður. Samgönguáætlun hefur ekki legið fyrir og liggur ekki enn fyrir þó að það hafi verið sagt á fundi fjárlaganefndar þegar breytingartillögur meiri hlutans komu fram að hún væri að koma bara innan skamms. Enn um sinn og innan skamms, það eru hugtök sem virðist orðið erfitt að lesa í.

Það er afar mikilvægt að hér sé ekki verið að taka ákvarðanir út frá einhverjum tilteknum hugmyndum þeirra sem í fjárlaganefnd sitja í ljósi þess, eins og gerðist í sumar, að ekki er farið í gegnum samgönguráð. Faglegt ferli er ekki (Forseti hringir.) viðhaft, virðulegi forseti. Það er ómögulegt að gera þetta svona og hafa ekki langtímaáætlun í jafn viðamiklum málaflokki.