145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:47]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er vægast sagt undarlegt að heyra þingmenn hér, hvern á fætur öðrum, tala um aðför að öryrkjum og eldri borgurum þegar verið er að auka kaupmátt bóta meira en áður hefur verið gert. (Gripið fram í.) Auðvitað má ekki bera þetta saman við það sem síðasta ríkisstjórn gerði. Það má ekki einu sinni nefna það. Hér koma (Gripið fram í.) menn og segja: Það þýðir ekkert að tala um prósentur. (Gripið fram í.) Menn eiga bara að tala um krónur. (Forseti hringir.) Jæja, hvernig er krónusamanburðurinn við það sem síðasta ríkisstjórn bauð upp á í þessum efnum?

Svo kemur hér upp sérlegur talsmaður síðustu ríkisstjórnar, hv. þingmaður Pírata, og kallar hv. þingmenn hálfvita, (Gripið fram í.) kallar hv. þingmenn hálfvita (Gripið fram í.) fyrir að skilja það ekki að síðasta ríkisstjórn hafi rekið ríkissjóð með svo svakalegum halla að hún hafi ekki haft efni á að koma til móts við þá sem minna mega sín. [Frammíköll í þingsal.] Hún hafi eytt svo svakalega um efni fram (Forseti hringir.) í aðra hluti að hún hafi ekki haft efni á því að koma til móts við þá sem minna mega sín. [Óróleiki í þingsal.] Hv. þingmaður leyfir sér að halda því fram að aðrir þingmenn séu hálfvitar að skilja þetta ekki.

Þetta er til marks um það á hvaða stað þessi umræða er þegar verið er að ráðast í meiri aukningu, meiri hækkun en (Forseti hringir.) menn hafa séð á undanförnum árum. Það er verið að leiðrétta aftur í tímann þó að það sé greitt í framhaldinu, þó að það sé greitt eftir áramótin. Ég segi nei.