145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:51]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Atkvæðaskýringar og umræður af hendi forustu ríkisstjórnarinnar endurspegla fullkomna firringu og þann veruleika að forustumenn ríkisstjórnar Íslands átta sig ekkert á þeim daglegu kjörum sem hér er um að ræða. Benda raunar á prósentur og milljarða (Gripið fram í: … en ekki hvað?) eins og þetta fólk (Gripið fram í.) borði það um mánaðamótin. (Gripið fram í.) Það er ekki þannig. (Forseti hringir.) Þetta fólk talar um betri tíma, ber sér á brjóst þegar það talar um betri tíma og aukinn vöxt og allt á uppleið. En fyrir hverja eru þessir betri tímar? Um hvað snýst þetta?

Hæstv. ráðherra, Bjarni Benediktsson, heldur innblásna ræðu hér, um hvað? Að ekki megi ganga nær stórútgerðinni á Íslandi. Það var heitasta ræða fjármálaráðherra í umræðunni. Hvar er réttlætiskenndin og hitinn þegar talað er um aldraða og öryrkja? Nei, þá eigum við að vera yfirveguð. Þá skulum við vera yfirveguð. Þetta fólk hefur lækkað tekju- og eignarskatt á stóreigna- og hátekjufólk í landinu og lækkað auðlindaskatta og með því að afsala ríkissjóði tekjum hafa þessir menn, (Forseti hringir.) Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Forseti hringir.) og Bjarni Benediktsson, tekið peninga af öldruðum og öryrkjum og (Forseti hringir.) fært til ríkasta fólksins í landinu. Þannig er samfélagssýn þessarar ríkisstjórnar. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Þetta er bara lygi.)