145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:03]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við tölum mikið um Landspítalann eðli málsins samkvæmt þar sem hann er þjóðarsjúkrahúsið okkar en við megum ekki gleyma hinu stóra sjúkrahúsinu okkar á Akureyri sem þarf líka á auknum fjármunum að halda. Þar er meðal annars óviðunandi aðstaða á geðdeildinni. Fram hefur komið í skýrslu sem hæstv. heilbrigðisráðherra fékk afhenta, ég held nú á haustdögum, að byggja þarf við til þess að leysa úr vanda spítalans. Ég á von á því að hæstv. heilbrigðisráðherra sýni mjög fljótlega á þau spil og segi hvernig hann ætlar að taka á því máli. Það þarf að styrkja Sjúkrahúsið á Akureyri og hér leggur minni hlutinn til 100 millj. kr. til þess að bregðast við brýnni nauðsyn.