145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er eðlilegt að Landspítalinn sé að jafnaði fyrirferðarmikill í umræðu um fjárlög enda ein allra mikilvægasta stofnunin sem við stöndum sameiginlega að. Það er líka eðlilegt að spyrja sig hvers vegna, á sama tíma og við höfum aldrei sett fleiri krónur í rekstur Landspítalans í heildina, skuli vera svona mikil átök um hvort ekki þurfi meira fjármagn. Einhver svör við því liggja í fjölgun landsmanna og fleiri þurfa á hjúkrun að halda. Það er líka vegna þess að á undanförnum árum, þegar við höfum verið að bæta í til Landspítalans, höfum við sérstaklega lagt áherslu á mannauðinn sem þar er. Þetta ár hófst til dæmis á því að það voru almenn verkföll hjá læknum, skurðstofum átti að loka. Það svigrúm sem hefur skapast í fjárlögum á árinu 2015 fyrir árið 2016 er að langmestu leyti notað til að bæta kjör starfsmannanna og menn koma núna strax í kjölfarið og segja: Það þarf líka að fara í reksturinn — já, já, við viljum gjarnan líka fara í reksturinn en við getum (Forseti hringir.) bara ekki gert þetta allt í einu. Við erum að minnsta kosti komin á þann stað að það er búið að ná niðurstöðu (Forseti hringir.) um kjaramálin, sem allir hljóta að vera sáttir við til langs tíma, og við höfum aldrei gert betur (Forseti hringir.) í framlögum til Landspítalans.

Ég segi nei við þessari tillögu.