145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:19]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Þetta er spurning um forgangsröðun. Í ár fara 15,5 milljarðar í skuldaniðurfellingu, bara í ár. Það vantar 3 milljarða í þjóðarsjúkrahúsið sem allir eiga að hafa greiðan aðgang að, hvort sem þeir eru með verðtryggt fasteignalán eða ekki. Það eru ekki til peningar í það. Þetta er forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar og hún er óþolandi. Aðstæður eru algjörlega óviðunandi á Landspítalanum. Þakið er að hrynja á Grensásdeild. Það er mygla á skurðstofum Landspítalans. Hvað er í gangi? Svo þarf að fá 30 milljónir því að orðum forstjóra Landspítalans er ekki trúað, þá þarf að fá 30 milljónir í einhverja greiningu um hvort það vanti peninga því að þeir trúa ekki orðum embættismanns síns. (LRM: Sannleiksnefnd.) Þetta er óþolandi. Gjörið svo vel að setja þessar 30 milljónir beinustu leið inn í þennan spítala og bætið svo um betur.