145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:26]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það er ekki nema von að hv. þingmönnum Vinstri grænna og Samfylkingarinnar svíði það þegar talað er um popúlisma í tillögum sem birtast okkur í umræðunum hér í dag. Það er ekki nema von. En stakkaskiptin gefa fullt tilefni til að talað sé um popúlisma; saga þessara flokka segir okkur ekki annað.

Á niðurskurðarárunum var mest skorið niður í þeim málaflokkum sem þeir tala mest fyrir, í umhverfisráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti, 7,3% og 8,5%, á sama tíma og miklu minna var skorið niður í öðrum málaflokkum. Það er staðan.

Og hoppum aðeins yfir girðinguna og förum heim til þeirra þar sem þau hafa ráðið undanfarin ár og ráða í dag. Gefum Björgvini Guðmundssyni, fyrrverandi borgarfulltrúa þeirra og varaþingmanni, orðið. Hann segir að eldri borgarar hafi hætt í félagsstarfi vegna hækkana á gjaldskrá; eldri borgarar eru að hrekjast úr félagsstarfi. Við getum svo vitnað í könnun sem var gerð á vegum Gallup. Og hvað kom í ljós? Reykjavíkurborg, af 19 sveitarfélögum þar sem þetta var kannað, fær lægstu einkunn allra sveitarfélaga fyrir frammistöðu í málefnum aldraðra og öryrkja, í skólamálum, leikskólamálum og þannig má lengi telja. Er von að hér sé talað um popúlisma þegar þetta sama fólk, í garðinum þar sem það ræður öllu, leggur ekki meiri áherslu á þessa málaflokka en raun ber vitni? Ég segi nei.