145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:29]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hélt að flestir stjórnmálamenn þvert á flokka væru á því að það þyrftu að fara meiri fjármunir til Landspítalans. Svo kemur maður hingað og heyrir þingmenn stjórnarflokkanna lýsa því yfir að þeir sem haldi því fram séu popúlistar og það sé nóg að gert.

Virðulegi forseti. Þetta er alveg með ólíkindum þegar við vitum öll að það eru kvótar á því hversu margir geta farið í aðgerðir, það eru kvótar á því hversu margir geta fengið lífsnauðsynleg og heilsubjargandi lyf. Við vitum það öll sem horfumst í augu við veruleikann að spítalinn þarf aukna fjármuni og svo sitja menn hér og halda því fram að þeir sem um það tala séu popúlistar.

Ég spyr stjórnarþingmenn sem hér eru inni og eiga eftir að greiða atkvæði að hugsa sig vandlega um hvort þeir séu ekki tilbúnir til að koma með okkur í þann leiðangur að afnema kvóta á þann fjölda sem getur farið í mikilvægar aðgerðir, afnema kvóta á þann fjölda (Forseti hringir.) sem getur fengið nauðsynleg lyf. Það er veruleikinn sem við búum við í dag. (Forseti hringir.) Eigum við ekki að koma okkur út úr því í staðinn fyrir að standa hér með skæting út í þá sem benda á þetta? Ég segi já.