145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég segi já. Landspítalinn hefur mætt miklu skilningsleysi af hálfu stjórnarmeirihlutans og það er sorglegt að þegar það kemur ákall frá þjóðarsjúkrahúsi okkar og starfsfólkinu sem vinnur þar, þegar forstjóri spítalans gerir grein fyrir grafalvarlegri stöðu Landspítalans, láti menn það sér í léttu rúmi liggja. Það er grafalvarleg staða. Það vantar fjármuni í viðhald og rekstur og við höfum fengið að sjá það í sjónvarpsfréttum að þar eru hriplek þök og aðstaða öll til skammar, sveppir og guð má vita hvað. Og þetta er hátæknisjúkrahúsið okkar Íslendinga þar sem við viljum að sé góð og örugg þjónusta.

Við Íslendingar erum neðarlega á listanum varðandi framlög til heilbrigðismála og uppbyggingu innviða heilbrigðisþjónustunnar. Við erum í næstneðsta sæti hjá OECD-löndunum (Forseti hringir.) á milli Grikklands og Mexíkós. Er það staður sem þessi þjóð vill vera á?