145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:36]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra stendur hér í eigin persónu í ræðustóli og segir nei við því að bæta ríflega 2 milljörðum kr. inn í Landspítalann, viðurkennir þó að ekki sé nóg að gert. Það er fróðlegt að heyra hvernig hæstv. heilbrigðisráðherra stendur með Landspítalanum, þessu flaggskipi íslenska heilbrigðiskerfisins.

Eru til peningar? Já. Það er 10 milljarða kr. afgangur hjá ríkissjóði. Það kostar 3 milljarða að verða við óskum Landspítalans um brýnustu úrbætur. En það er ekki hægt að verða við því, það er ekki hægt að taka spítalann trúanlegan og það er kallað lýðskrum þegar stjórnarandstaðan tekur til varna.

Á sama tíma bíða mörg hundruð manns eftir hjartaaðgerðum og það er kominn sjúklingakvóti á þær aðgerðir. Fólk bíður í allt að þrjú ár sárkvalið (Forseti hringir.) eftir liðskiptaaðgerðum og það er sjúklingakvóti á lífsbjargandi lyfjum eins og við krabbameini og augnblindu. Þetta er náttúrlega ekki hægt og ég segi að sjálfsögðu já við þessari tillögu.