145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hér er um að ræða 70 millj. kr. til að greiða húsaleigu á þremur nýjum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu í átta mánuði. Í fyrstu tillögunum sem við fengum í hendur í fjárlaganefnd fylgdi með skýring á þessu, það stæði til að bjóða út rekstur á nýju heilsugæslustöðvunum og reyndar væri það til að auka aðgengi sjúklinga að þeim. Ég áttaði mig aldrei á því hvernig það færi saman en það er annað mál.

Þegar tillagan kemur síðan í gögnum í nefndarálitinu er búið að taka út þessa setningu um að það standi til að bjóða út heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu. Síðan er hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í viðtali í þættinum Sprengisandi þar sem hann segir að þetta standi til og hann styðji þetta.

Við höfum kallað í umræðunni eftir hæstv. heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) til að fara yfir þetta með okkur og fara í gegnum þá stefnubreytingu ef það á að fara enn frekar út í einkarekstur í heilbrigðiskerfinu en hann hefur ekki sinnt því kalli.