145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:06]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég harma það fyrst að ekki sé hægt að koma hingað upp um fundarstjórn forseta því að þá mundi ég koma og þakka forseta fyrir mikla stjórnfestu og yfirvegun í þessari löngu og erfiðu atkvæðagreiðslu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Við í minni hlutanum leggjum til 1,7 milljarða í fæðingarorlofið svo hægt sé að hækka þakið upp í 500 þús. kr. Það jafngildir 80% af meðaltekjum í landinu, en ef stjórnarmeirihlutinn hafnar þessari tillögu okkar þá er hann að taka ákvörðun um að hafa fæðingarorlofsfjárhæðirnar óbreyttar í þrjú almanaksár. Það er algerlega ólíðandi og það er ekki hægt að skilja smábarnafjölskyldur Íslands eftir á köldum klaka núna þegar efnahagur landsins er að vænkast.