145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:14]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er með þetta eins og þakið í fæðingarorlofinu að ríkisstjórnin hefur ekki verðbætt viðmiðin. Það skiptir höfuðmáli. Þess vegna leggjum við hér til að þau fylgi almennri launaþróun og í tilviki barnabótanna byrji þær ekki að skerðast fyrr en við 270 þús. kr. Það hefur verið ótrúlegt að eiga umræðu hér í þingsal við stjórnarliða við meðferð þessa máls. Það er eins og stjórnarliðið skilji ekki eðli barnabóta. Barnabætur eru ekki lífskjarauppbót fyrir lágtekjufólk. Barnabætur eru í öllum vestrænum lýðræðissamfélögum tæki til þess að jafna aðstöðumun milli þeirra sem eiga börn og þeirra sem ekki eiga börn. Þær eiga að fara til fólks þó að það sé með meðaltekjur og jafnvel yfir meðaltekjum. Þetta eru ekki láglaunabætur. Það er grundvallarhugsunarvandi í gangi hér og hugmyndafræðileg meinloka af hálfu stjórnarmeirihlutans að veikja barnabótakerfið, veikja fæðingarorlofið, (Forseti hringir.) veikja vaxtabætur og breyta öllum þessum stuðningskerfum í láglaunabætur. Við sjáum tillögur um það sem búið er að panta frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta er grundvallarbreyting á íslensku velferðarkerfi.