145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:15]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er verið að tala um að barnabætur miðist við 270 þús. kr. áður en til skerðinga kemur, en ekki 200 þús. kr. Eins og hv. síðasti þingmaður sagði eru þetta ekki láglaunabætur. Barnabætur eru hugsaðar til að styðja og styrkja barnafjölskyldur.

Það eru líklega ansi margir hér inni sem eiga lítil börn og hafa átt lítil börn og vita að það er töluverður kostnaður sem fylgir því að eiga lítil börn. Það eru leikskólar og ýmislegt fleira sem kemur þar inn í sem er kostnaðarsamt. Barnabætur eru fyrst og fremst til að styðja við fólk, þær eru ekki láglaunabætur. Það er ekki ásættanlegt að barnabætur skerðist við 200 þús. kr. og ég tek undir það með hv. þingmanni að það er eins og stjórnarmeirihlutinn hafi ekki áttað sig á því um hvað málið snýst og það er það sem við höfum búið við í umræðunni þegar þessi mál hafa verið rædd. (Forseti hringir.)

Það er eins með þessa tillögu og aðrar tillögur minni hlutans; (Forseti hringir.) þó að við ætlum að samþykkja eina tillögu hjá meiri hlutanum (Forseti hringir.) þá sér hann sér ekki fært að samþykkja eina einustu af okkar tillögum.