145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:17]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Samanlagt eru aðgerðir þessarar ríkisstjórnar þar sem þrengt er að barnafjölskyldum í landinu að verða ansi margar. Barnabæturnar eru beinlínis skertar að krónutölu, vaxtabæturnar eru skertar, fæðingarorlofinu er haldið niðri, matarskatturinn er hækkaður og svona get ég haldið lengi áfram. Á sama tíma eru barnafjölskyldurnar í landinu með mesta greiðslubyrði af lánum, mesta vaxtakostnaðinn og þær eru með gríðarlega þungan kostnað vegna leikskóla og skólagöngu barna sinna. Ég hefði haldið að við gætum náð saman um það hér að láta að minnsta kosti viðmiðin í þessum kerfum fylgja verðlagi og launaþróun. Með því að gera það ekki taka menn ákvörðun um að veikja þessi kerfi. Það hefur verið blautur draumur sjálfstæðismanna lengi og núna taka framsóknarmenn þátt í því að grafa undan öllu stoðkerfi við barnafjölskyldur í landinu.