145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:31]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegur forseti. Ég vil fagna þessu og taka undir með hæstv. umhverfisráðherra. Sigrúnu Magnúsdóttur, að Ísland er með metnaðarfulla áætlun þegar kemur að þessum málum. Og ekki nóg með það, það er jákvæð breyting að sjá hjá núverandi umhverfisráðherra að það er mjög praktísk hugsun líka. Þau verkefni sem við erum með hér eru af þeim toga að þau tengja atvinnulífið saman við þá hugsun að binda kolefnið og það er sú praktík sem við þurfum að sjá og skorti allverulega á síðasta kjörtímabili.

Þetta er gríðarlega ánægjulegt og það er gríðarlega ánægjulegt hvernig Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra hefur haldið á þessum málum. Ég vil óska öllum til hamingju með þá niðurstöðu sem náðist í París og sérstaklega hæstv. umhverfisráðherra fyrir þær tillögur sem við sjáum í fjárlagafrumvarpinu, þá praktísku hugsun sem þar er ríkjandi og þá breytingu frá síðasta kjörtímabili hvað þessi mál varðar.