145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því undir þessari grein um vaxtagjöld ríkissjóðs að þau voru lækkuð í fjárlagafrumvarpinu um 7,3 milljarða kr. vegna þess að gert er ráð fyrir að stöðugleikaframlag upp á 170 milljarða sé nýtt m.a. til að greiða eftirstöðvar af skuldabréfi Seðlabankans. Þannig lækkar vaxtakostnaðurinn. Þessir 140 milljarðar eru hins vegar hvergi sýndir sem framlag á móti láninu og það þarf auðvitað að gera. Við fengum þær upplýsingar í fjárlaganefnd þegar við vorum að spyrja út í þetta að þar sem ekki væri búið að ákveða hvort þetta ætti að koma í fjáraukalögum eða fjárlögum eða hvernig það mundi leggjast, þá væri það ekki sýnt með öðrum hætti. En auðvitað verðum við að sýna fjárframlögin í bókum ríkissjóðs. Það er ekki nóg að sýna bara lægri gjöld af vaxtakostnaði þannig að ég geri ráð fyrir að við fáum og þurfum að taka umræðu um alla þessa milljarða á milli 2. og 3. umr.