145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:51]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil koma inn á tölulið 2, þar er nýr liður við 6. gr., að heimila Jarðasjóði að selja jarðir sem ekki eru nýttar til ábúðar í því skyni að koma þeim í ábúð eða nýta þær á annan hátt. Ég er mjög ánægð að sjá að hérna sé loksins komið inn á það að reyna að koma þessum jörðum út í nýtingu og fá þannig tekjur í ríkissjóð. En ég verð þó að leggja til að fyrir 3. umr. verði skoðað að heimila Jarðasjóði að selja eða leigja jarðirnar því að ef þetta á að vera til þess fallið að nýta jarðirnar þá eru dæmi um að verðið sé allt of hátt á jörðunum. Ég mundi líka leggja til eins konar kaupleiguákvæði, ef hægt er að koma því inn í skipulagið. Svo þyrfti fjármálaráðuneytið sem Jarðasjóður heyrir undir að fara í verkefni með landbúnaðarráðuneytinu og reyna að búa til einhvers konar áætlun um það hvernig eigi að koma þessum jörðum út í sem besta nýtingu því að það er mjög erfitt að setja jarðir sem ætlaðar eru til landbúnaðar inn í excel-skjal.