145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ekki nema von að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sé á harðahlaupum frá þessu máli og tali eins og aðeins sé um heimild að ræða. Fjárlagafrumvarpið sjálft gerir ráð fyrir tekjum af þessari eignasölu. (VigH: Það var líka í ykkar …) Með því er Framsóknarflokkurinn [Frammíköll í þingsal.] að selja Landsbankann þvert gegn eigin samþykktum. (Forseti hringir.) Hæstv. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er að selja samfélagsbankann. Frosti Sigurjónsson hefur sýnt fram á að við Íslendingar munum tapa 4–5 milljörðum á þessari ákvörðun á hverju ári. Ógæfa Íslands hófst með einkavinavæðingu Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks á bönkunum. Nú er sá leiðangur hafinn öðru sinni. Ekki einu sinni flokksmenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins treysta þeim fyrir þessu verki og því síður við.