145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ásakanir þingmanns.

[10:17]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Hér í gærkvöldi féllu ummæli sem ekki er hægt að sitja undir. Í atkvæðaskýringu sagði hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, með leyfi forseta:

„Menn ættu að hlusta sem ættu að hlusta í þessum sal. Það er ekki hægt að láta bjóða sér það að menn séu flissandi hérna úti í sal undir áhrifum.“

Og nú vil ég fá að vita, herra forseti, hvaða menn er verið að tala um. Undir hvaða áhrifum voru þeir? (Gripið fram í.) Ef þetta verður ekki upplýst sitjum við öll sem erum hérna (Gripið fram í.) andspænis ráðherrabekknum undir þessu og ég kæri mig ekki um það vegna þess að allt bull sem hér fer fram, gott og slæmt, fer inn í fundargerðir Alþingis. Ég kæri mig ekki um að barnabörnin mín komi einhvern tímann og lesi fundargerð þessa fundar og hugsi með sér: Ja, afi gamli var fullur í þessum sal. Ég kæri mig ekki um þetta.

Ég vil því fá að vita í fyrsta lagi hvaða menn þetta voru og undir hvaða áhrifum. Ef ekki er hægt að verða við því að þessi ummæli verði (Forseti hringir.) dregin til baka og beðist afsökunar á þeim, verði það ekki gert, tek ég þetta upp í forsætisnefnd þingsins þar sem ég sit vegna þess að svona áburður er óþolandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)