145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:23]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er einmitt það sem þessi tillaga gengur út á, að hv. velferðarnefnd fái húsnæðismálin til sín og geti fjallað um þau helst strax í dag og sent þau til umsagnar þannig að úrvinnslan sé með sómasamlegum hætti. Stjórnarandstaðan leggur það til og er samhuga og einhuga í því að greiða málinu leið í þinglega meðferð. Þá standa hér upp þingflokksformaður Framsóknarflokksins og meðráðherra hæstv. húsnæðismálaráðherra og missa sig. Ég átta mig ekki á því hvernig taugakerfið virkar hjá þessu fólki. (Gripið fram í.)

Við bendum á að þarna séu brýn mál á ferð og að við ræðum þau í mikilvægisröð. Er nokkuð að því? Og vegna þess að hér er verið að tala um samkomulag um að eitthvað hefði átt að klárast í september þá bið ég bara hæstv. utanríkisráðherra að sýna mér þann texta, að einhvern tíma hafi verið samkomulag um að klára eitthvað í september, áður en hann fer að bera svik upp á fólk.