145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:39]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég hygg að það sé enginn maður í þessum sal í stjórnarandstæðingahópnum sem hefur brennandi áhuga á þessu máli nema hv. þm. Össur Skarphéðinsson. (BjG: Ekki ég?) Þess vegna hefur hann safnað öllum stjórnarandstöðuþingmönnum að baki sér á eyðimerkurgöngu líkt og Móse forðum í þeirri von að Rauðahafið muni opnast þeim, en það gerir það ekki, hann mun ganga beint í sjóinn með þetta.

Auðvitað er hægt að afgreiða þetta mál hratt og vel og taka til við húsnæðismálin. Það þurfum við að gera. Það alvarlega í þessu máli — fyrir utan taugaástand fólks, ég kæri mig nú ekki um að vita um taugaástand hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur — er að það er alltaf gott þegar menn eru menn orða sinna, en stjórnarandstöðufólk á Íslandi núna er ekki menn orða sinna. Það er mjög alvarlegt vegna þess að enn er drjúgt eftir af kjörtímabilinu og það er svo óbærileg tilhugsun að geta ekki gert samkomulag (Forseti hringir.) við fólk í vissu þess að það verði ekki svikið þegar maður snýr sér við.