145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það má rifja það upp fyrir þingheimi að Móse leiddi sína þjóð út af eyðimörkinni og hann var líka leiddur af guðlegri forsjá.

Ég ætla nú ekki að halda því fram að nokkur hér inni sé þannig staddur, en hins vegar gengst ég fúslega við því að ég er nokkur áhugamaður um Þróunarsamvinnustofnun.

Ég kem þó aðallega hér upp vegna þess að mér finnst hæstv. utanríkisráðherra spyrja mjög óviðeigandi spurningar. Hann spurði: Er nokkur maður hér inni sem heldur að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason ljúgi? Ég hugsa að svo sé ekki. Ekki held ég það. Ég tel að í honum búi hrein og tær sál Daladrengsins. En hins vegar finnst mér hann oft misskilja hlutina.

Ég held að hægt sé að leysa þetta mál. Hæstv. utanríkisráðherra vill ná fram ákveðnum breytingum á Þróunarsamvinnustofnun og við höfum lagt hér fram breytingartillögu sem tekur nánast yfir allt það sem hæstv. ráðherra vill, þannig að við þurfum ekkert að vera hér til jóla og alls ekki til (Forseti hringir.) áramóta. Við gætum afgreitt þetta mál á klukkutíma, (Forseti hringir.) tveimur tímum, með þeim hætti að hæstv. utanríkisráðherra fengi stofnunina inn í utanríkisráðuneytið (Forseti hringir.) og það yrði nánast gengið að öllum þeim markmiðum sem hann vill. Það er hægt ef menn vilja frið í málinu.