145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:42]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Nú þegar tvö og hálft ár eru búin af þessu kjörtímabili og sem betur fer styttist í næstu kosningar er í raun saga ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum mjög dapurleg, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Það sem hefur kristallast og komið fram í fjölmiðlum eru veruleg átök milli stjórnarflokkanna um þessi mál. (VigH: Nú?)Við höfum áttað okkur á því og séð það að húsnæðismálin hafa lokast inni í fjármálaráðuneytinu ítrekað. Að Sjálfstæðisflokkurinn virðist setja sig upp á móti húsnæðismálum húsnæðismálaráðherra ítrekað og (Gripið fram í.)það virðist vera vandi að koma málunum þar í gegn.

Nú er það svo að ráðherrann virðist ekki einu sinni njóta stuðnings síns eigin fólks. Við erum bara að tala um það hér að koma málunum í þinglega meðferð. Við erum bara að tala um að koma húsnæðismálunum til velferðarnefndar þannig að velferðarnefndin geti sent þau til umsagnar. Er eitthvað sem kallar fram slík boðaföll og skapofsaköst í tilefni af því?