145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:43]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil taka það fram að ég hef mikinn áhuga á ÞSSÍ, bara svo að það sé sagt. Össur er ekki einn hér í salnum sem hefur þennan gríðarlega áhuga. (SSv: Hv. Skarphéðinsson.)— Hv. Skarphéðinsson, já.

En ég vil líka segja að þegar verið er að tala um að það sé popúlismi að koma fram með þessa dagskrárbreytingartillögu — ja, öðruvísi mér áður brá, ég get nú ekki sagt annað. Að halda því líka fram að við séum að spila út einhverjum tafaleikjum. Ríkisstjórn Íslands samdi um að þessi húsnæðismál væru partur af kjarasamningum. Ég gerði það ekki. Stjórnarandstaðan gerði það ekki. (GÞÞ: Ertu á móti því?) Ríkisstjórnin gerði það.

Ríkisstjórn Íslands er nýkomin fram með þessi mál. Við töfðum þau ekki. (Gripið fram í.) Við töfðum þau ekki. (GÞÞ: Þið eruð búin að vera í málþófi síðan í haust.) (Gripið fram í: … reyna að greiða fyrir …) Málin frá ríkisstjórninni hafa komið seint til þingsins þannig að það er ekki hægt að segja að stjórnarandstaðan hafi tafið fyrir því að þau kæmust hér á dagskrá. Við erum að biðja um að þau njóti forgangs umfram mál sem er svo lítil að sögn hæstv. utanríkisráðherra að þau eru bara formbreyting. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin er hér að forgangsraða þessu litla máli umfram húsnæðismálin. (Forseti hringir.) Um það snýst málið. (GÞÞ: Hvaða vitleysa er þetta?) Það eru örfáir dagar hér til jóla (Gripið fram í.) og það er (Forseti hringir.) ekki hægt að halda því fram (GÞÞ: Tíminn er búinn.) að ekki sé hægt að taka málin á dagskrá í þeirri röð sem við leggjum hér til. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)