145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hygg að það sé stórgóð hugmynd að skrifa niður efnislega þessi samkomulög. Nú var ég þarna þegar téð samkomulag var undirritað og það samanstóð af lista yfir þingmál sem voru til afgreiðslu á því þingi og fyrir aftan sum þeirra stóð eitt orð: September. Það er það sem var kvittað undir. Þetta er mjög dæmigert í lok þings, sér í lagi þegar þingið stefnir inn í júlí eins og var tilfellið þá, fólk er að reyna að finna út hvaða mál sé hægt að afgreiða á þeim litla tíma sem eftir er. (Gripið fram í.) Þá búa menn til þessa lista. Við kvittuðum undir þessa lista, vissulega. Eina efnislega umfjöllunin um það hvernig málsmeðferðin ætti að vera var orðið „september“. Samkvæmt mínu minni vorum við alveg skýr með það að við getum ekki samið um þingsköp, við getum ekki samið um það hvernig málinu vindur fram. Ef menn vilja leggja málið fram og ræða í september, gott og vel. (Gripið fram í: Nákvæmlega.) Ég legg til eins og hv. þingmaður sem talaði hér á undan að samkomulag verði skriflegt héðan í frá (Forseti hringir.) en sömuleiðis vil ég benda hv. meiri hluta á það að besta svarið, ef þetta er eitthvað „stönt“, er að segja bara já.