145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:57]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er í senn alvarlegt og leitt að sú staða skuli vera komin upp í þinginu, sem hefur verið óskrifuð regla hér, að menn geti treyst þeim samningum sem þeir gera. Ég er búinn að sitja hér í átta ár og ég man ekki eftir því að sú staða hafi komið upp áður að menn geti ekki treyst þeim samningum sem gerðir hafa verið. (Gripið fram í.) Það er alveg nýtt. (GÞÞ: … í salnum og grípur svo fram í góða ræðu Jóns Gunnarssonar.) Það blasir hérna við leikhús fáránleikans, eins og ég kallaði það áðan, í þessu máli.

Hv. þm. Birgir Ármannsson fór áðan vel yfir alla þá umfjöllun sem málið hefur fengið. Það var tuga klukkutíma umræða í vor, mikil umræða í utanríkismálanefnd, málið var svo aftur tekið til nefndar í haust og fékk ítarlega umfjöllun. Í 50 klukkutíma er búið að ræða málið á þessu þingi og enn kemur hv. þm. Óttarr Proppé upp og segist hlakka mikið til umræðunnar. Það gerir þetta mál að þeim málum sem hlotið hafa hvað mesta umræðu í þingsögunni. (Forseti hringir.) Það er í hópi þeirra. Þetta er bara flutningur á einni stofnun innan sama ráðuneytisins. (Forseti hringir.) Öðruvísi mér áður brá þegar allir tilflutningarnir voru gerðir á síðasta kjörtímabili. (Forseti hringir.) Hættum þessum leikaraskap, hv. þingmenn, og látum þingræðið ráða hér. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)