145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:07]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill ítreka það að það er óþolandi þegar sú staða er uppi að hv. þingmenn, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, koma hér upp og þurfa að skýra mál sitt og hafa til þess eina mínútu, að þeir fái ekki til þess næði á þeim stutta tíma. Það er eðlileg krafa bæði þeirra sem tala, krafa forseta og annarra þingmanna, að menn virði það að hv. þingmenn hafa stuttan tíma til þess að koma máli sínu á framfæri. Hér hafa talað allmargir þingmenn í samræmi við þingsköp. Forseti gerir að sjálfsögðu engar athugasemdir við það, en hann vill að þeir hv. þingmenn sem hér tala, eins og sá hv. þingmaður sem talaði hér áðan, fái möguleika á að koma því á framfæri sem hv. þingmaður (Gripið fram í.) vill gera. Og það á við um aðra þingmenn, og sömuleiðis að virða ræðutíma. En þegar það gerist að frammíköllin hefjast með þessum hætti, sem hefur verið að gerast allt of oft hér í morgun, hefur það þau áhrif að þingmenn fara lengra fram yfir sinn leyfilega ræðutíma og þó að forseti berji í bjöllu er ekki tekið tillit til þess.