145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

Ríkisútvarpið.

[11:26]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég heyri að yfirdrifin yfirlýsingagleði gærkvöldsins heldur áfram af hálfu hv. þm. Árna Páls Árnasonar. Það er alveg furðulegt að menn skuli leyfa sér að tala um aðför og árásir og slíkt gagnvart hinu og þessu þegar um er að ræða í flestum eða öllum tilvikum verulega aukningu fjárveitinga til hinna ýmsu málaflokka og stofnana. En allt eru þetta árásir, pólitískar aðfarir og ég veit ekki hvað.

Þegar við berum saman hvernig þessi ríkisstjórn hefur staðið að þeim málum sem hv. þingmaður nefndi í upphafi, t.d. varðandi stöðu eldri borgara og öryrkja eða stofnanir eins og þá sem hann spurði sérstaklega um, sjáum við að í öllum tilvikum leggur núverandi ríkisstjórn meira til þeirra þátta í fjárlögum en sú síðasta. Með rökum hv. þingmanns gæti ég miklu frekar sakað hann um að hafa verið í aðför að öllum þessum hópum og þessum stofnunum, (Gripið fram í.) eins fráleitt og það nú væri. Þetta er viðkvæmt, virðulegur forseti. Hér byrjar hv. þm. Svandís Svavarsdóttir að kalla fram í á sama hátt og af sömu biturð og birtist okkur í gærkvöldi.

Virðulegur forseti. Eins og hæstv. menntamálaráðherra hefur útskýrt þurfa mál að njóta stuðnings í þingflokkum stjórnarflokkanna og auðvitað meðal ráðherra til að hægt sé að afgreiða þau til þingsins. Hæstv. menntamálaráðherra hefur metið það sem svo, og ég tel að það sé rétt mat hjá honum, að tillögur á borð við þá sem hv. þm. Árni Páll Árnason nefndi hafi ekki notið stuðnings í þessum þingflokkum. Hins vegar verður hv. þingmaður að hafa í huga að ríkisstjórnin hefur verið að setja fjármagn í þessa stofnun langt umfram það sem hans eigin ríkisstjórn gerði og auk þess er nú verið að afhenda lóð sem var í ríkiseigu Ríkisútvarpinu til þess að styrkja enn rekstrarforsendur þess og auka framlög til stofnunarinnar frá því sem leit út fyrir fáeinum vikum.