145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

upphæð útvarpsgjalds og rekstrarstaða RÚV.

[11:31]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar til þess að ræða við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og eins og þingmaðurinn sem var hér á undan mér hef ég áhyggjur af stöðu Ríkisútvarpsins. Nú kom það í ljós í gær eða var alla vega samþykkt í 2. umr. fjárlaga að ekki yrði horfið frá lækkun útvarpsgjalds sem lækkar vissulega tekjur útvarpsins og gerir rekstur þess erfiðan. Ég, eins og hæstv. ráðherra að ég held, er mikill áhugamaður um Ríkisútvarpið og af mörgum ástæðum, ekki síst sem mikilvæga menningarstofnun. Ég vil meina að íslenska ríkisútvarpið sé framvörður íslenskrar menningar og tungu og ekki síst íslenskrar tónlistar. Ég hef áhyggjur af rekstrarstöðunni sem mun koma upp þegar tekjur til stofnunarinnar lækka.

Nú vitum við að Ríkisútvarpið hefur átt í fjárhagslegum erfiðleikum. Það er búið að skera talsvert mikið niður. Nýir stjórnendur og ný stjórn hafa staðið saman og að því er virðist gengið vel að aðlaga reksturinn. Það virðist hafa gengið óvenjuvel að gera það farsællega að hafa starfsfólkið samtaka í vinnunni, þó svo maður finni auðvitað mun, án þess að það bitni of illa á dagskrá eða setji allt í loft. Nú hefur þverpólitísk stjórn Ríkisútvarpsins sammælst um að það verði mjög sársaukafullt að fara í breytingarnar ef svo fer sem horfir og gefið þær yfirlýsingar til okkar. Þess vegna langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann deili ekki áhyggjum af þessum síðustu breytingum og hvort hann sé ekki sammála mér að það skipti máli að Ríkisútvarpið sé sterkt í menningarlegu tilliti.