145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

upphæð útvarpsgjalds og rekstrarstaða RÚV.

[11:36]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég og hæstv. ráðherra deilum þeirri skoðun að Ríkisútvarpið eigi að þróast og breytast, það segir sig eiginlega sjálft og það mundi væntanlega hætta að geta staðið undir skilgreindu hlutverki sínu og líka sem menningarstofnun ef ekki væri þróun þar. Það er kannski dálítið augljóst fyrir mér sem kem úr tónlistarbransanum hvað uppeldishlutverk Ríkisútvarpsins er ómetanlegt og er hluti af því sem hefur gert það að verkum hvað íslensk tónlist er orðin stór bransi og stór alþjóðlegur bransi.

Nú hefur stjórnin og núverandi stjórnendur Ríkisútvarpsins sett fram áætlanir um breytingar og komið mörgum þeirra til leiða, en ég hef áhyggjur af því að sú lækkun tekna sem nú verður muni setja þær áætlanir í uppnám. Ég hef áhyggjur af því og vona og (Forseti hringir.) biðla til hæstv. ráðherra að standa með mér og öðrum í því að reyna að koma í veg fyrir að þær áætlanir renni allar út í sandinn.