145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

markmið Íslands í loftslagsmálum.

[11:39]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri hér úr stól Alþingis að óska hæstv. umhverfisráðherra til hamingju með niðurstöðu Parísarsamkomulagsins um loftslagsmál og biðja hana að bera kveðju mína sérstaklega til íslensku samninganefndarinnar sem hefur unnið þrotlaust að þessu markmiði árum saman og á þakkir skilið fyrir það.

Nú liggur fyrir að markmið Íslands fellur undir almenna markmiðið, þ.e. almenna markmið Evrópusambandsins um 40% samdrátt fram til ársins 2030. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hún sér fyrir sér að íslenska markmiðið verði mótað, þ.e. innanlandsmarkmiðið. Hvernig sér hún fyrir sér samstarf við sveitarfélögin í þeim efnum? Hvernig sér hún fyrir sér samstarf við atvinnulífið? Og hvernig sér hún fyrir sér hlutverk og verkefni Alþingis í varðandi þessa brýnu umræðu?

Umhverfisráðherra og hennar ráðuneyti hlýtur að eiga að vera í forustu um það hvernig ákvarðanir eru teknar um næstu skref. Ég hef ekki heyrt neitt um það samráð eða samskipti við atvinnulíf, sveitarfélög eða Alþingi ef því er að skipta varðandi þennan málaflokk. Ég hef áhyggjur af því ef menn ætla að láta það duga að vera bara þátttakendur í sameiginlegu markmiði og taka svo ekki til við það af miklum krafti að móta íslenska markmiðið og það sé metnaðarfullt og það sé skýrt skilgreint hvernig þetta nauðsynlega samráð fer fram.