145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

markmið Íslands í loftslagsmálum.

[11:41]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir góð orð í minn garð og ráðuneytisins og tek svo sannarlega undir það að samninganefndin íslenska hefur unnið ótrúlegt kraftaverk. Nefndin búin að standa í samningum í fleiri ár um loftslagsmálin og ég varð vitni að því núna eins og ég veit að hv. þingmaður hefur áður verið vitni að að það var unnið dag og nótt. Það er ekkert ofmælt í því efni, sérstaklega síðustu dagana úti í París. Menn þurftu jafnvel að hafa vaktaskipti til þess að geta aðeins gleymt sér í einhverjar mínútur. Það verður ekki fullþakkað hvað þau lögðu á sig og þau voru að passa eins og gengur í svona samningaviðræðum að orð og annað sem við vildum alls ekki að dytti út, héldist inni. Þar vil ég nefna það sem mörgum fannst nú sérstakt og ég hef sagt áður, þ.e. að passa jafnrétti, en það voru ákveðin nýyrði sett inn um að gæta jafnræðis og jafnréttis vegna þess að það er svo mikilvægt í því þegar kemur að því að endurskoða það sem sett var fram á þessum fundi að sjónarmið sem flestra komi að í samninganefndum og í þeim úttektum sem gerðar eru, hvað sé búið að gera og það verði tekið markvisst út og að konur séu í þeim nefndum. Ég varð vitni að því að mönnum fannst kannski svolítið sérkennilegt að við skyldum leggja þessa áherslu á jafnréttið.

Ég tel að núna sé ákveðið upphaf. Við fórum út til Parísar með markmið, við vorum búin að móta okkur ákveðnar skoðanir hvað við gætum gert, en nú vinnum við úr því. Og sannarlega vil ég taka þessa umræðu hér á Alþingi, hlakka til að fá góðar ábendingar, því það er enginn einn sem er að vinna þetta eða eitt ráðuneyti. Þetta er samstarfsverkefni. Öðruvísi verður aldrei hægt að gera þetta. Þetta er samstarfsverkefni í raun allra. Þetta er verkefni þar sem ákveðin hugarfarsbreyting þarf að eiga sér stað svo við náum árangri.