145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

markmið Íslands í loftslagsmálum.

[11:44]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin svo langt sem þau náðu. En ég verð að segja að það veldur mér vonbrigðum að ráðherrann skuli líta svo á að næstu skref í þessum verkefnum séu bara tvist og bast úti í samfélaginu og ekki þurfi að halda utan um þau. Ég hefði haldið að ráðherra svo mikilvægs málaflokks fyndi sig í því að hafa forustu um það að beina þessum kröftum í sameiginlegan farveg, þ.e. sveitarfélögunum, atvinnulífinu og grasrótarsamtökum og öðrum þeim sem hafa skoðanir, reynslu og aðkomu að losunarmálum. Þannig að ég vil hvetja hæstv. ráðherra til dáða. Við erum ekki á byrjunarreit í þessum málaflokki, hann hefur auðvitað verið á dagskrá ráðuneytisins um árabil og hæstv. ráðherra hefði kannski getað látið sér detta í hug að við værum með einhverja niðurstöðu eftir París og vera þá tilbúin í næstu skref, þ.e. þessi innanlandsverkefni.

Mig langar að spyrja ráðherrann líka um það hvernig hún sér fyrir sér að kynjasjónarmið komi inn í innanlandsmálin að því er varðar loftslag.