145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

markmið Íslands í loftslagsmálum.

[11:45]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt ef fyrirspyrjandanum finnst ekki ríkja nægur metnaður og skal ég sannarlega taka það til mín og reyna að standa mig sem best ég get og halda utan um þetta og halda í þá forustu sem við í umhverfis- og auðlindaráðuneyti höfum haft, því Hugi Ólafsson sem er fyrir sendinefndinni hefur stýrt þessu og þetta er á okkar vegum.

Það er ekki þannig að við séum ekki búin að gera neitt. Títtnefndur Hugi Ólafsson situr t.d. í stjórn um málefni hafsins sem er í sjávarútveginum með Háskóla Íslands til þess að móta nýja tækni í sjávarútvegi til þess að geta sparað orku. Raunverulega gekk allt út á það í París að breyta heiminum varðandi orkumálin, orkuskiptin og hvaða nýir möguleikar væru í því að afla orku. Við höfum tekið það alvarlega.

Það var líka mjög gaman að því að vera vitni að því hvað fólk var áhugasamt t.d. um (Forseti hringir.) jöklana okkar, landgræðsluna og aðra atburði sem við héldum þarna úti. Að þessu öllu munum við vinna, höfum verið að gera plön og munum vinna að þeim í framhaldinu.