145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga.

[11:50]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði ekki að tala um einstök sveitarfélög, ég var nú að hugsa um Reykjanesbæ þegar ég var að tala um mjög illa rekin sveitarfélög. Álftanes er annað dæmi. En ég skynja mikinn þunga í þessari umræðu einmitt núna, ég veit þetta hefur verið til umræðu í mörg ár en þunginn er mikill núna. Menn hafa áhyggjur af þessu og ég er hér að taka undir þær og kalla eftir viðhorfum hæstv. forsætisráðherra, sem kom mér kannski svolítið á óvart. Ég er líka að hugsa um það að við erum kannski að fara að fá inn tekjur vegna stöðugleikaframlags þótt við ætlum auðvitað ekki að setja það allt beint inn í rekstur, en ef við náum að lækka skuldirnar þá lækkum við vaxtagreiðslur. Mun það ekki nýtast sveitarfélögunum með einhverjum hætti? Ég er bara að segja að nú árar betur, er þá ekki kannski rétti tímapunkturinn til að fara að ræða þetta?

Ég vil líka spyrja hæstv. forsætisráðherra út í sóknaráætlun landshluta sem er verklag sem mikil ánægja ríkir með þvert á flokka en þessi ríkisstjórn skar niður með óskiljanlegum hætti. Sú áætlun er tækifæri til þess að beina fjármagni út í landshlutasamtökin þar sem þau forgangsraða og finna út úr því hvernig fjármunir eru nýttir. Það er önnur leið til að bæta sveitarfélögum upp þá þröngu stöðu sem þau eru í og ég hef skilning á því, þau eru að greiða með verkefnum í mörgum tilfellum og sum sveitarfélög eru alvarlega að tala um að skila hreinlega verkefnum til ríkisins. Mér finnst við ekki geta bara skautað yfir þetta, við þurfum að taka almennilega umræðu um þessi málefni. Og þar sem ég stend hér og hugsa þá kemur mér í hug að við ættum kannski að kalla eftir sérstakri umræðu um þetta, því þessi viðbrögð koma mér svolítið á óvart.