145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

aðgangur 25 ára og eldri að framhaldsskólum.

[11:56]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst byrja á því að gera athugasemd við það orðalag hv. þingmanns að lokað hafi verið fyrir aðgang að framhaldsskólum landsins fyrir 25 ára og eldri. Í fyrsta lagi er það svo að engar breytingar hafa verið gerðar hvað varðar aðgengi að iðn- og verknámi enda er stór hluti þeirra nemenda mun eldri, er ekki á hefðbundnum framhaldsskólaaldri. Síðan talaði hv. þingmaður um 700 nemendur. Það er nú svo og þetta höfum við rætt á fundi í hv. allsherjar- og menntamálanefnd að mjög sterkt samhengi er á milli fjölda þeirra sem eru 25 ára og eldri og sækjast eftir námi í framhaldsskólum og atvinnustigs, og sennilega líka, án þess að ég hafi látið skoða það sérstaklega, kaupmáttar eða launa. Þegar skoðaðar eru tölur aftur í tímann og borið saman það atvinnustig sem nú er og það sem var fyrir hrun og fjölda nemenda sem voru þá eldri en 25 ára í framhaldsskólakerfinu og þann fjölda sem nú er, blasir við sú mynd að það eru sambærilegar tölur. Þess vegna er það mjög undarleg talnaleikfimi sem hv. þingmaður stundar hér að leggja svo út að þarna sé beint samhengi á milli þegar gögnin sýna annað og ég veit að hv. þingmaður hefur séð þessi gögn því ég sýndi hv. þingmanni þau sjálfur á fundi.

Hvað varðar sýnina á þetta kerfi þá skal ég segja þetta: Við Íslendingar höfum skorið okkur úr hvað varðar samanburð við aðrar OECD-þjóðir í því að við erum með eitthvert mesta brottfallið og lélegustu námsframvinduna á framhaldsskólastigi. Þessu þarf að breyta. Við erum að breyta þessu. Meðal annars liggur fyrir að það er gríðarlegt brottfall hjá þeim sem eru eldri en 20 ára í framhaldsskólakerfinu (Forseti hringir.) og við höfum horft til dæmis til þess hvernig Norðurlandaþjóðirnar gera þetta. Tökum til dæmis Svía og Norðmenn. Báðar þjóðirnar hafa þá reglu að þegar fólk er orðið 25 ára og eldra fer það inn í fullorðinsfræðsluna en er ekki gert að setjast á skólabekk með 16 ára nemendum. (Forseti hringir.) Það er það sem við erum að leggja upp með, svipað og gert er í hinum margþekktu norrænu velferðarríkjum.