145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

aðgangur 25 ára og eldri að framhaldsskólum.

[12:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði: Við skulum ekki pexa um tölur. En þetta snýst um tölur. Það var uppleggið hér, þ.e. fjöldi nemenda, sú tala sem við erum að tala um, hversu margir eru eldri en 25 ára í kerfinu og hvers vegna fólk er í skóla og hvers vegna ekki. Ég var að benda hv. þingmanni á það að atvinnustigið hefur hér heilmikið að segja. Það er hægt að skoða atvinnustigið fyrir hrun. Hvað voru margir þá 25 ára og eldri í skólunum? Atvinnustigið er hið sama núna og hvað eru margir núna á þessum aldri í skólunum? Þetta skiptir máli. Síðan getur hv. þingmaður auðvitað kannað hversu margir hafa verið að bætast á atvinnuleysisskrá af þeim hópi.

Auðvitað erum við hv. þingmaður sammála um að menntun skipti máli. En við skikkum ekki fólk inn í skóla. Það sem við þurfum að gera og verðum að breyta og höfum látið ganga hér allt of lengi er að við vermum botnsætið þegar kemur að námsframvindu í framhaldsskóla. Það þýðir að við erum alltaf að búa til vandamál, búa til þá stöðu að allt of margir detta úr framhaldsskólunum, ljúka ekki námi þar, koma svo seinna á ævinni. Þetta er vond nýting á tíma og fjármunum, sérstaklega á tíma einstaklinganna. Eigum við að halda áfram að hafa þetta svona? Eigum við að halda áfram að skera okkur úr hvað varðar aðrar þjóðir og verma botnsætið þegar kemur að þessu? (Forseti hringir.) Nei. Við þurfum að breyta þessu og komast á svipaðan stað og aðrar þjóðir þannig að til dæmis um 65% af okkar ungmennum sem klára framhaldsnám klári það á tvítugu, á þeim tíma sem á að klára það. En við erum langt frá því. Það eru einungis 45% af hverjum árgangi hjá okkur sem klára framhaldsskólann á tilsettum tíma. Það er óásættanlegt. (Gripið fram í.)