145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[12:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Þá tökum við til 3. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands og fleira sem lýtur að skipulagi, formi og fyrirkomulagi þessarar mikilvægu stofnunar. Eins og komið hefur fram í umræðunni áður og svo sem einnig í umræðunni áðan höfum við rætt þetta mál í þessum sal í 50 klukkustundir, hvorki meira né minna. Það hefur verið tekið fyrir á 16 fundum utanríkismálanefndar þannig að einhver mundi nú reyna að halda því fram með nokkurri sanngirni, held ég, að málið hefði verið vel rætt og ítarlega og að fram hafi komið mörg sjónarmið er það varða. Ljóst má vera að um það eru skiptar skoðanir.

Eins og kom fram í fyrri umræðu, og ég ætla ekki að fara í gegnum það nákvæmlega, hvorki innihald frumvarpsins, inntak þess eða það nefndarálit sem hér var til umræðu við 2. umr., en svona holt og bolt kom þar fram vilji meiri hluta utanríkismálanefndar til þess að málið yrði klárað óbreytt í þeirri mynd sem það var lagt fram. Nú liggur fyrir breytingartillaga frá meiri hlutanum sem undir rita sú sem hér stendur og aðrir fulltrúar meiri hlutans í utanríkismálanefnd.

Ég vil láta þess getið að málinu var vísað, eins og þingheimur þekkir, til utanríkismálanefndar eftir 2. umr. í þessum sal og var í framhaldi af því tekið fyrir á fjórum fundum nefndarinnar, 27. nóvember, 30. nóvember, 3. desember og 7. desember, þar sem málið var afgreitt úr nefndinni með hjásetu fulltrúa minni hlutans í nefndinni. Á þessa fjóra fundi voru fengnir gestir, að sjálfsögðu var orðið við þeim beiðnum sem komið höfðu um að ákveðnir gestir kæmu á fund nefndarinnar, auk þess sem rætt var um þau álitamál sem nefndarmenn töldu helst ástæðu til að ræða betur að lokinni 2. umr.

Til upplýsingar komu á fund nefndarinnar í þessari umræðulotu eftir 2. umr. komu á fund nefndarinnar Ágúst Geir Ágústsson frá forsætisráðuneytinu og Matthías G. Pálsson frá utanríkisráðuneytinu. Þá komu einnig Engilbert Guðmundsson, Ágústa Gísladóttir og Hannes Hauksson frá Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Á öðrum fundi um málið í þessari lotu komu Kristján Andri Stefánsson, Helga Hauksdóttir, Harald Aspelund og María Erla Marelsdóttir frá utanríkisráðuneytinu. Og síðan á þriðja fundinn í þessari lotu, þann 3. desember síðastliðinn, kom Maríanna Traustadóttir frá ASÍ og aftur komu Ágústa Gísladóttir og Hannes Hauksson frá Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Síðan var málið rætt og afgreitt úr nefndinni 7. desember síðastliðinn. Áður höfðu þessir gestir meira og minna allir komið á einhverjum tímapunkti á fund nefndarinnar.

Það sem aðallega var til umræðu á vettvangi nefndarinnar að þessu sinni voru í fyrsta lagi þær hugmyndir sem fram komu við 2. umr. og ræddar hafa verið á milli þingmanna, um aðkomu Alþingis, aðkomu þingmanna að þessu verkefni. Hér er lögð fram breytingartillaga við þetta frumvarp frá meiri hluta utanríkismálanefndarinnar sem lýtur að 3. gr. frumvarpsins og tekur á því að tryggja að hver þingflokkur sem sæti á á Alþingi skuli tilnefna einn fulltrúa í þróunarsamvinnunefndin er kemur að þessum málum. Við vorum sammála um það í nefndinni. Ástæðan fyrir því er sú að í fyrirliggjandi frumvarpi er gert ráð fyrir fimm fulltrúum úr þessum sal, frá þingmönnum. Okkur þótti eðlilegt sem erum í meiri hluta nefndarinnar, og ég vona að um það náist ágæt sátt hér, að hver þingflokkur sem sæti á á Alþingi eigi sinn fulltrúa í þróunarsamvinnunefnd. Að þessu sinni er það svo að hér eiga fleiri þingflokkar sæti en fimm og töldum við mikilvægt að komið væri til móts við það. Eins væri mikilvægt að festa ekki fjöldann heldur tæki hann mið af fjölda þingflokka hverju sinni. Þess vegna er lögð fram breytingartillaga um að b-liður 3. gr. orðist svo, með leyfi forseta:

„Hver þingflokkur sem á sæti á Alþingi skal tilnefna einn fulltrúa.“

Í greinargerð kemur fram orðrétt, virðulegur forseti:

„Í ljósi þess að fjöldi flokka á Alþingi er breytilegur telur meiri hlutinn mikilvægt að tryggt sé að hver þingflokkur sem á sæti á Alþingi hverju sinni eigi fulltrúa í þróunarsamvinnunefnd.“

Það var einnig til mikillar umræðu og verður sjálfsagt betur yfirfarið af hálfu fulltrúa minni hlutans hér, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, er lýtur að hugmyndum sem nefndar hafa verið í þessu samhengi um að í stað þess að stofnunin fari beint undir ráðuneytið verði um að ræða svokallaða ráðuneytisstofnun. Nokkuð var um það rætt á fundum nefndarinnar. Þetta var ef til vill fyrirferðarmesta umræðuefnið í þessari lotu. Það er álit okkar sem í meiri hlutanum sitjum eftir þá yfirferð og umræður að ekki sé farsælt að setja neitt slíkt inn í þennan lagatexta eða frumvarpið enda sé þetta í raun og veru skipulagsákvörðun ráðherra á hverjum tíma og lúti að skipuriti í ráðuneyti hans. Það var því ekki skoðun okkar að það væri farsælt. Aukinheldur teljum við ekki að það fyrirkomulag mundi gagnast að þessu leyti, sérstaklega vegna þess að það þyrfti þá að taka alla þá er starfa á vettvangi ráðuneytisins að þróunarmálum og setja þá undir umrædda stofnun vegna þess að allt verkefnið þyrfti að fara undir slíka stofnun. Niðurstaða okkar var því sú að það mundi flækja málið, gera það að verkum að meginmarkmið frumvarpsins, sem er að einfalda og gera skilvirkari stjórnsýsluna í kringum verkefnið, mundi vera komið í þá flækju að úr því yrði illa leyst. Við töldum því að það væri ekki farsælt. Ég vildi gera grein fyrir því að um það var talsvert rætt. Val á gestum sem fyrir nefndina komu tók mikið mið af vilja nefndarmanna til að ræða þetta frekar.

Meiri hluti utanríkismálanefndar leggur hins vegar áherslu á að frumvarpið er mikilvægt. Það er mikilvægt að klára þessa löggjöf og tryggja umgjörðina um þetta mikilvæga verkefni. Við höfum náð góðum árangri í þessum málaflokki. Forgangsraðað hefur verið í þágu þessara verkefna. Það er alfarið okkar skoðun og í raun og veru urðum við enn staðfastari í þeirri skoðun okkar eftir þessa yfirferð að fyrirkomulagið sem hér er lagt til sé farsælt og það farsælasta sem í boði er til þess að ná auknum árangri í málaflokknum.

Við leggjum því til líkt og áður að frumvarpið verði samþykkt og það verði að lögum sem allra fyrst til að eyða þeirri óvissu sem þessi langa umræða hefur skapað í kringum málið. En ég vona að breytingartillagan sem við leggjum hér áherslu á og leggjum fram til að ná aukinni sátt um málið og tryggja þessa farsælu aðkomu þingsins, hljóti hér góðar undirtektir.