145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[13:01]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Mörgum kann að finnast skrýtið að ég sé þakklátur fyrir að þetta mál komist að lokum til umræðu í þinginu. Ég tel að okkur beri skylda til að reyna að vera lausnamiðuð í þessari umræðu og geri mér góðar vonir um að hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, hafi að minnsta kosti notað þessa umræðu til að hlusta vel og velta fyrir sér hvort ekki sé færi á því fyrir hana sem handhafa málsins, að því marki sem hún hefur forræði á því innan þingsins sem formaður utanríkismálanefndar, að finna með okkur hinum mögulega sáttaleið í þessu máli. Ég tel að ef friður sé í boði eigi menn að taka hann, sérstaklega í málefni eins og þessu sem harðar deilur hafa staðið um, sem mikill óvilji er gagnvart því að samþykkja hjá fjölda fólks hér inni og sem nánast engir hafa lýst yfir stuðningi við. Hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir þekkir hjörtun og nýrun í þingmönnum Sjálfstæðisflokksins töluvert betur en ég og ég þarf ekkert að spá í það hvort hún viti ekki hina raunverulegu afstöðu þingmanna Sjálfstæðisflokksins til þessa máls sem mér þykir vont.

Það hefur komið fram fyrr á þessum morgni að ég er kappsfullur um þetta mál, það er alveg hárrétt, en ég vísa því hins vegar algjörlega á bug að ég eða einhverjir aðrir í liði stjórnarandstöðunnar hafi með einhverjum hætti farið umfram það sem hægt er að kalla eðlileg þingmörk í viðleitni okkar til að leiða fram hið rétta í þessu máli. Því nefni ég þetta að í morgun var talað um að menn eins og ég væru reiðubúnir að beita þingið ofbeldi í málinu. Hvað er ofbeldi í þessu máli, frú forseti? Ofbeldið hefur mér sýnst fyrst og fremst koma frá þeim sem flytur málið sem hefur ekki tekist að koma fram með nein rök fyrir því en er hér að reyna að þrýsta því í gegn í krafti vilja síns án þess að hafa fært fyrir því rök sem hafa sannfært að minnsta kosti stjórnarþingmenn um málið í þeim mæli að þeim hafi þótt taka því að reyna að létta honum róðurinn í því þunga andstreymi sem hér er. Samkvæmt þingsköpum getum ég, sem flutningsmaður nefndarálits, og hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir flutt hérna eins margar ræður og okkur sýnist. Ég geri ekki ráð fyrir að hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir muni að þessu sinni notfæra sér þann rétt út í einhvers konar öfgar, en ef það væri rétt sem til dæmis hv. þm. Ásmundur Einar Daðason lét að liggja hér í morgun, að mér væri málið slíkt kappsmál að það væri hugsanlegt að fara í einhverjar (Gripið fram í.) slíkar æfingar — eða þá skoðanabræður hv. þingmanns — (Gripið fram í.) væri mér í lófa lagið af því að ég er vel sofinn og þrekmikill miðað við aldur og fyrri störf (Gripið fram í: Og fallegur.) — ég læt aðra dæma um það — að halda hér umræðu mjög lengi áfram. Mér er hins vegar mest í mun að ná hér vitrænni umræðu um þá tillögu sem við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum lagt fram sem sáttaleið í málinu.

Áður en ég held lengra finnst mér nauðsynlegt að það komi algjörlega skýrt fram að mér þótti félagi minn Helgi Hjörvar borinn þungum sökum hér í morgun. Því var haldið fram að hann hefði gert samkomulag sem ekki væri verið að standa við. Nú er rétt að það komi fram að ekki vissi ég af neinu meintu samkomulagi fyrr en hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir upplýsti um það sem hún taldi niðurstöðu í því á fundum í nefndinni. En það kom líka fram í umræðu í þeirri nefnd að jafnvel þeim sem voru á vettvangi þegar það samkomulag var gert og eiga sæti í utanríkismálanefnd, fólki á báðum vængjum stjórnmálanna, þótti niðurstaðan í besta falli óskýr. Hafi niðurstaðan verið sú að þessu máli ætti að ljúka á haustþingi eru engin tilefni til þess á þessum tímapunkti að ásaka hv. þm. Helga Hjörvar um neins konar svik eða undirmál í þeim efnum vegna þess að haustþingi er ekki lokið. Því lýkur ekki fyrr en á gamlársdag. Jafnvel þó að við tölum í þessu máli fram á gamlársdag eru engin tilefni til að halda því fram fyrr. Þar að auki ætla ég að halda því fram að það sé fyrst og fremst sleifarlag meiri hlutans á þingi að það er ekki löngu búið að finna niðurstöðu í þessu máli á hvorn veg sem hún fellur. Hæstv. ráðherra getur verið hundfúll út í mig fyrir að hafa skoðanir sem eru honum fullkomlega öndverðar. Báðir höfum við lögmætar ástæður til að hafa þá skoðun sem við höfum. Það eru engin lögmæt tilefni til að ásaka stjórnarandstöðuna um einhvers konar málþóf eða tafir vegna þessa máls.

Hvers vegna er þetta mál á dagskrá núna en er ekki löngu lokið? Það er vegna þess að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, formaður þingflokks framsóknarmanna, hefur greinilega ekki ýtt meira eftir málinu en svo að í heilan mánuð lá það í kyrrstöðu í miðri umræðu. Það var ekki að ósk stjórnarandstöðunnar sem þessu máli var kippt úr umræðu fyrirvaralaust 22. október og látið liggja umræðulaust til 18. nóvember. Í heilan mánuð lét stjórnarliðið þetta mál liggja án þess að nokkuð væri gert í því og það var svo sannarlega ekki að ósk stjórnarandstöðunnar. Við hefðum gjarnan viljað taka þá snerru sem þarf að taka um þetta mál og leggja það síðan til hliðar og taka næsta mál á dagskrá. Það var ekki vilji okkar að fara með það með þessum hætti.

Þetta vildi ég segja í upphafi þessarar umræðu, frú forseti.

Efnisleg rök okkar í stjórnarandstöðunni liggja fyrir. Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa langt mál um þau. Þau komu öll fram við 1. og 2. umr. þessa máls og sömuleiðis í fyrra. Þeim sem vilja kynna sér það vísa ég sérstaklega á nefndarálit sem við lögðum fram þegar málið kom til 2. umr. í þinginu. Það sem ég ætla í stuttu máli að fara yfir eru þær hugmyndir sem við höfum í málinu. Hvað vill hæstv. ráðherra? Hann vill sameina öll verkefni á sviði þróunarsamvinnu innan utanríkisráðuneytisins. Hann vill gera það til að stytta boðleiðir millum sín og þróunarsamvinnukjarnans. Hann vill koma í veg fyrir tvíverknað. Hann vill hafa betri yfirsýn yfir málaflokkinn og hann vill hugsanlega koma málum þannig til leiðar að það sé mögulegt að í framtíðinni verði hægt að ná fram einhvers konar hagræðingu.

Þá er rétt að greina frá því að í allri umræðu málsins hér í hátt á annað ár hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að um nokkurn tvíverknað sé að ræða millum Þróunarsamvinnustofnunar annars vegar og utanríkisráðuneytisins hins vegar. Það hefur komið fram í úttektum óháðra erlendra aðila að samskiptin séu mjög góð og mjög lipur og að ekkert skorti á þau. Það hefur sömuleiðis komið fram af hálfu þeirra sem gerst vita, þ.e. fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, að það sé varla hætishót af von um að þetta leiði til sparnaðar upp á eina einustu krónu.

Þá veltir maður fyrir sér, og það væri gaman að fá að heyra viðhorf hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, formanns utanríkismálanefndar, til þess, hvers vegna við erum þá að fara þessa leið. Hvers vegna erum við að breyta stofnun sem jafnvel nýtur lofsyrða hæstv. ráðherra, stofnun sem talað er vel um af öllum sem hafa komið til nefndarinnar og sem allir eru mjög jákvæðir gagnvart? Þá er rétt að rifja upp ummæli hv. þm. Hönnu Birnu sjálfrar Kristjánsdóttur við 1. umr. málsins þegar ég spurði hana sérstaklega eftir viðhorfi hennar til stofnunarinnar og hún hlóð hana lofsyrðum, eins og aðrir. Staðreyndin er sú að Þróunarsamvinnustofnun er fyrirmyndarstofnun. Hún hefur hlotið lof innan lands og erlendis og menn hafa sérstaklega hrósað henni fyrir nýmæli í starfi. Þau nýmæli hafa orðið til þess að erlendar systurstofnanir miklu stærri ríkja eins og Þýskalands hafa óskað sérstaklega eftir því að fá að kynna sér starfsemi hennar með það fyrir augum að taka upp ýmiss konar nýmæli. Þau nýmæli sem byggja ekki síst á því með hvaða hætti stofnunin starfar með grasrótinni nálgast hana með því hugarfari að gefa heimamönnum í héraði, þar sem fjármunum Íslendinga er varið til að þétta efnahagslegar undirstöður, kost á því að hafa sitt álit á og sína þátttöku í því hvaða verkefni eru tekin upp og með hvaða hætti þau eru unnin. Þetta er ákaflega lofsverð nálgun.

Undir núverandi forustu, og reyndar fyrri forustumönnum þessarar góðu stofnunar, hefur tekist ákaflega vel að brjóta upp starfsemi hennar og ná upp nýjum takti, nálgast viðfangsefni með nýstárlegum hætti. Þetta ber auðvitað að viðurkenna og horfast í augu við. Miklu frekar en að láta verk stofnunarinnar verða til þess að hún verði felld að velli með einu bylmingshöggi ætti að ýta undir hana og styrkja hana. Það er niðurstaða þeirra sem hafa farið höndum um þessar hugmyndir hæstv. ráðherra.

Í því efni vísa ég auðvitað ekki síst til þeirra fagsérfræðinga sem hafa komið til máls við utanríkismálanefnd. Ég nefni sérstaklega umsögn félagsvísindasviðs Háskóla Íslands sem sagði einfaldlega á fundi nefndarinnar og sló það síðan í gadda í umsögn að það væri bráðræði að ætla sér að leggja stofnunina niður. Miklu frekar vildu þeir sérfræðingar sem meðal annarra orða njóta álits, ekki bara heima heldur líka erlendis, fyrir rannsóknir sínar á sviði þróunarsamvinnu leggja til að stofnunin yrði styrkt, að farin yrði sú leið sem hæstv. menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson, komust að 2004 og 2005 þegar þessum sömu tillögum var velt upp gagnvart þeim að það væri best að fara þá leið að sameina öll þróunarsamvinnuverkefnin á einum stað, vissulega, en gera það utan utanríkisráðuneytisins, þ.e. taka verkefnin sem eru innan þess ráðuneytis og flytja í Þróunarsamvinnustofnunina. Ég held að það væri betri kostur en sá sem núna er uppi og víst er að þeir sem hafa rannsakað þessi mál komust að þeirri niðurstöðu að það væri betra þó að menn teldu, líkt og ég, að best væri að hafa stofnunina með óbreyttu lagi.

En gott og vel, ráðherrann vill koma í veg fyrir tvíverknað, hann vill að stofnunin gangi í takt við utanríkisstefnuna, hann vill skapa möguleika til hugsanlegrar hagræðingar í framtíðinni og hann vill, eins og hann sagði hér í sinni síðustu ræðu um málið, auka yfirsýn yfir málaflokkinn. Þetta eru lögmæt sjónarmið. Þetta eru prýðileg markmið þó að það sé ekkert andlag fyrir því að það sé eitthvað sérstakt sem kalli á þetta. En gott og vel, er hægt að sameina þessi markmið hæstv. ráðherra við þau markmið sem við höfum og slá á þann kvíðboga sem við berum fyrir þessum breytingum? Og hver er hann? Jú, við óttumst að með því að þróunarsamvinna sé með þessum hætti tekin inn í utanríkisráðuneytið, vegna þess hvernig málum er þar háttað vegna flutningsskyldunnar, þynnist að lokum sú þekking og reynsla sem er til staðar og hefur byggst upp árum saman innan Þróunarsamvinnustofnunar. Þess vegna höfum við flutt hér tillögu sem við teljum að sé kjörin leið til sátta í þessu máli. Í stuttu máli felst hún í því að Þróunarsamvinnustofnun sé færð í heilu lagi inn í utanríkisráðuneytið, starfi þar áfram sem sérstök ráðuneytisstofnun og að inn í hana séu færðir allir þeir starfsmenn og öll þau verkefni sem lúta að þróunarsamvinnumálum. Það sem við erum í reynd einungis að fara fram á er að gerð verði undanþága gagnvart flutningsskyldunni. Þetta teljum við að muni leiða til þess að þekkingin tvístrist ekki og dvíni heldur geti með sama hætti haldið áfram að byggjast upp innan stofnunarinnar.

Þá velti ég fyrir mér hvaða rök séu gegn þessu. Ég spyr hv. þingmann, formann utanríkismálanefndar: Er þetta ekki sáttaleið sem er einnar messu virði að skoða? Ráðherrann nær fram öllum þeim markmiðum sem hann vill. Með þessu er í gadda slegið að það verður enginn tvíverknaður. Það er gulltryggt að stofnunin gengur í takt við utanríkisstefnuna. Ef hæstv. ráðherra vill hafa fjarstjórnarvald yfir henni er alveg ljóst að hann hefur það samkvæmt þessu. Hvers vegna að slá á þetta sáttaboð af okkar hálfu?

Allir utanríkisráðherrar, allt frá hinum stórmerka leiðtoga Framsóknarflokksins Ólafi Jóhannessyni sem segja má að hafi hrundið Þróunarsamvinnustofnun af stokkunum, hafa mann fram af manni lagt sig í líma og framkróka við að hafa sátt um þróunarsamvinnu. Hún er í eðli sínu flókinn og viðkvæmur málaflokkur. Það er mjög auðvelt að gera hana tortryggilega eins og við sjáum af umræðu sem oft sprettur upp. Það er þess vegna eftir miklu að slægjast að reyna að ná þverpólitískri sátt um málefni stofnunarinnar, um þróunarsamvinnu. Nú er stjórnarliðinu boðið upp á þessa sátt sem felur það í sér að málaflokkurinn er allur færður inn í ráðuneytið. Hæstv. ráðherra nær því öllu fram sem hann vill og það eina sem við erum í reynd að óska eftir er að flutningsskyldan verði undanskilin gagnvart starfsmönnum Þróunarsamvinnustofnunar.

Það erum ekki bara við sem höfum áhyggjur af þessu. Það eina sem ég finn að ræðu hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur hér áðan er að mér fannst hún tala af fullmikilli léttúð um að þessi breyting yrði ekki til þess að hafa áhrif á það hvernig þekkingin dvínar og jafnvel glutrast niður með þessu nýja lagi. Hverja hafði hún fyrir því? Hún tilgreindi eina heimild, bara eina heimild, ráðuneytisstarfsmennina, starfsmenn hæstv. ráðherra sem komu á fund nefndarinnar. Og við hverju býst hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir þegar spurt er út í frumvarp ráðherra? Vitaskuld bera þeir lof á það og telja engar hættur stafa af því með þessum rökum.

Hvað segir höfundur skýrslunnar sem lagði fram tillögur sem frumvarpið er byggt á? Í skýrslu hans upp á 218 blaðsíður fær fátt jafn þunga áherslu og einmitt hættan á því að þekking starfsmannanna fari forgörðum. Á bls. 204 og 205 er sérstaklega rætt djúpt um það og þar segir í umfjöllun um tillöguna sem frumvarpið var að lokum byggt á, með leyfi hæstv. forseta:

„Verði þróunarsamvinnuskrifstofa að miklu leyti mönnuð fólki sem getur átt von á að vera sent á starfsstöðvar sem ekkert tengjast þróunarsamvinnu er hætt við að stofnanaminni hverfi fljótt.“

Það er ekki ég sem skrifa þessi orð. Það er eini ráðgjafinn sem hæstv. utanríkisráðherra kallaði sér til ráðuneytis. Hann segir að ef þessi breyting verði gerð sé sérstök hætta á því að stofnanaminnið daprist og týnist fljótt. Hann segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Ef mikið er um flutning á fólki inn á þróunarsamvinnuskrifstofu, sem enga reynslu hefur á þróunarsamvinnu, útvatnast þekkingin fljótt.“

Með öðrum orðum, eini maðurinn sem hæstv. ráðherra kallaði sér til ráðuneytis er á annarri skoðun og hefur dregið aðra ályktun af sinni ítarlegu rannsókn á málinu en hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir dró af tiltölulega stuttum samtölum yfir skrifborð á fundum utanríkismálanefndar. Við hverja? Við starfsmenn hæstv. ráðherra.

Hvað sögðu sérfræðingarnir? Voru þeir kallaðir til? Hvað sögðu þeir? Þeir sögðu náttúrlega ekki neitt vegna þess að það voru engir sérfræðingar kallaðir til um það mál. En við höfum einn sérfræðing, Þóri Guðmundsson, sem hér hefur verið lýst sem miklum þekkingarmanni á þessu sviði og ég dreg ekkert úr því þó að ég sé þeirrar skoðunar að það hafi verið glapræði af hæstv. ráðherra að kalla bara til augu Rauða krossins. Það er önnur saga. Þórir Guðmundsson sem er sérstakur ráðgjafi hæstv. ráðherra skrifar um það á mörgum blaðsíðum hvað það er mikilvægt að varðveita stofnanaminnið og koma í veg fyrir að þekkingin útvatnist. Hann vísar sérstaklega til þess að í öðrum stofnunum, eins og í Írlandi sem hann notar sem módel fyrir tillögu sína, eigi menn til dæmis kost á því að skorast undan flutningi. Hann greinir frá því að til þess að koma í veg fyrir að þekkingin glatist til dæmis hjá Írum sé þess gætt að þróunarfræðingar flytjist fyrst og fremst á millum þróunarskrifstofa. Hefði ekki verið að minnsta kosti einnar messu virði fyrir hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að skoða okkar tillögu og jafnvel athuga hvort hægt væri á grundvelli hennar að finna eitthvað sem kæmi til móts við kvíðboga okkar varðandi þetta tiltekna dæmi? Það gæti hugsanlega verið eitthvað í átt við það sem er við lýði núna í Írlandi.

Það sem er grátbroslegast við stöðu málsins er að þegar við ræðum um þá sáttatillögu sem felst í því að Þróunarsamvinnustofnun verði í heilu lagi flutt inn í utanríkisráðuneytið byggir sú tillaga á lagabreytingum um Stjórnarráð Íslands sem tóku gildi í sumar. Ég hef fullan skilning á því að sú leið hafi ekki verið skoðuð þegar málið kom upphaflega fram vegna þess að hún var ekki fær að því marki sem fram kemur í lagabreytingunum frá því í sumar. En að frumkvæði hæstv. ríkisstjórnar samþykktum við hér síðla vors breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands sem tóku gildi í júlí. Þar er bókstaflega dregin upp forskrift að því hvernig á að gera þetta, sagt með hvaða hætti eigi að flytja stofnanir inn í ráðuneyti og því sömuleiðis lýst hvernig þær eru byggðar upp. Það er greint frá því að yfir þeim geti verið ákveðin forusta sem sé undir beinu boðvaldi utanríkisráðuneytisstjórans. Með öðrum orðum eru boðtengslin orðin svona: Hæstv. utanríkisráðherra > ráðuneytisstjóri > yfirmaður ráðuneytisstofnunar. Það er ekki hægt að búa til kerfi þar sem einn ráðherra getur haft meiri áhrif á eina stofnun. Hvað segir í greinargerð með lögunum sem við samþykktum síðastliðið vor og tóku gildi í júlí um ráðuneytisstofnanir? Það er beinlínis sagt að það sé verið að samþykkja þessa breytingu til að hún sé einmitt valkostur þegar áformaðar eru breytingar af því tagi sem hér eru að fara fram.

Með öðrum orðum er breytingin á stjórnarráðslögunum eins og klæðskerasniðin fyrir hið háa Alþingi til að finna sátt. Við erum að leggja fram þessa sátt og er þá rétt að slá á hana með þeim hætti sem hér hefur verið gert?

Þá vil ég brýna fyrir hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að það er hún sem er í forsvari fyrir þá sem hafa forræði málsins. Hæstv. ráðherra hefur ekkert með það að gera lengur. Málið er komið til þings. Það er ekki lengur á forræði hans. Ef þetta snýst um einhvers konar bernskt stolt ráðherra verður hv. þingmaður, formaður utanríkismálanefndar, að láta hagsmuni þingsins og heildarinnar ganga fyrir. Hv. þm. Hanna Birna fór ekki með mjög sterk rök fyrir því af hverju hún teldi sér ekki kleift að fara að tillögu okkar. Hv. þingmaður sagði að hún hefði skoðað þetta mál og að það hefði verið rætt í nefndinni. Svo hefðu þau rætt þetta í meiri hlutanum og komist að þeirri niðurstöðu að málið væri ekki farsælt. Gott og vel, ég get ekki deilt um það ef menn komast að annarri niðurstöðu, en ég á kröfu og heimtingu á því að fá rökin fyrir því. Af hverju, hv. formaður utanríkismálanefndar, er ekki farsælt fyrir þróunarsamvinnu að fara þá leið sem bókstaflega er teiknuð upp í nýjum breytingum í stjórnarráðslögunum? Af hverju er ekki farsælt að fara þá leið sem felst í írska módelinu sem var undirstaða tillögunnar sem Þórir Guðmundsson lagði upp með í frumvarpi sínu og segir bókstaflega í lýsingu á írska módelinu í glærukynningu sem við fengum á sínum tíma til okkar og er vafalítið hægt að finna á vefnum? Þar lýsir hann því beinlínis að innan írska utanríkisráðuneytisins sé þróunarsamvinnan í afmörkuðu hólfi, ekki ráðuneytisstofnun, hann segir það ekki en lýsir því með þeim hætti að það er eins og það sé bara „copy/paste“, með leyfi forseta, upp úr stjórnarráðsbreytingunum sem við samþykktum hér í fyrra. Hvað veldur því að hv. formaður utanríkismálanefndar er í reynd annarrar skoðunar en Þórir Guðmundsson, annarrar skoðunar en ýmsir sérfræðingar? Mér finnst mikilvægt að fá svör við þessu vegna þess að við erum hér í efnislegri umræðu og ég er hér, a.m.k. af hálfu minna pólitísku skyldmenna, að reyna að finna leið til sátta sem byggist á málefnalegum efnisatriðum en ekki einhverjum huglægum hrifum hjá einstökum ráðherrum sem eiga erfitt með að sætta sig við það að þingið taki af þeim völdin.

Hversu oft hefur það ekki gerst, frú forseti, að mjög umdeild mál hafa komið inn á Alþingi Íslendinga sem menn, ekki síst ráðherrar, hafa beygt sig aftur á bak til þess að reyna að ná sáttum um? Hvenær í sögunni hefur það gerst að hér hafi verið samþykkt frumvörp eða þingsályktunartillögur um þróunarsamvinnu sem djúpur ágreiningur hefur verið um? Aldrei. Hingað inn hafa komið mál sem menn hafa slegist alveg rosalega um, en þá hefur þingið borið gæfu til að láta þau liggja. Síðast minnir mig að það hafi verið 2008. Þá kom inn mál sem var svakalega umdeilt og olli heiftarlegum deilum og það var látið liggja.

Nú er þetta mál komið hér inn og að minnsta kosti af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni er mikil andstaða við það. Hér er lögð fram málefnaleg tillaga til sáttar sem byggir á sama módeli og höfundur skýrslunnar sem var undirstaða breytingarinnar lýsir, tillaga sem byggir á breytingu sem þessi ríkisstjórn kom í kring á lögum um Stjórnarráðið. Það segir bókstaflega í greinargerð að hún sé teiknuð upp fyrir breytingar af þessu tagi, fyrir utan það að í áliti nefndar frá árinu 2000 þar sem er fjallað um ráðuneytisstofnanir, vegna þess að málið hefur langan aðdraganda, er eiginlega í gadda slegið að svona eigi að gera þegar menn ætla sér að flytja verkefni inn í ráðuneyti eða sameina þau þar.

Mér er algjörlega hulið, frú forseti, af hverju menn ætla að kasta þessu svona frá sér. Ég tel að hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir skuldi mér og okkur í stjórnarandstöðunni frekari skýringar á því. Hún þarf að skýra það út af hverju þetta er ekki farsælt og hún þarf að skýra út af hverju hún tekur orð starfsmanna ráðherrans sem vill ekki breyta málinu ein gild gagnvart því að flutningsskyldan útvatni ekki þekkinguna þegar fyrir liggur að margar blaðsíður í skýrslunni sem frumvarpið byggir á útskýra með hvaða hætti það geti gerst. Og meðal annarra orða, ég bendi hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur á að í þeirri skýrslu er skýrsluhöfundurinn með margar ábendingar og leiðbeiningar um það hvernig hægt sé að draga úr þessum áhrifum en það er varla orð um það í frumvarpinu sjálfu.

Í síðasta lagi vildi ég benda hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur á eitt. Hún sagði áðan að það væri óhöndugt, ég man ekki hvaða orð hún notaði, að koma öllum starfsmönnum þróunarsamvinnunnar fyrir inni á sömu skrifstofu. Hver er tillaga Þóris Guðmundssonar? Hún er bókstaflega sú þannig að mér sýnist að hér rekist margt á annars horn.

Frú forseti. Eins og ég hef sagt virði ég lögmæti allra skoðana sem koma frá stjórnarliðinu. Ég vil hins vegar fá rökin fyrir þeim. Við erum hér loksins í málefnalegri umræðu og ég óska eftir því að það komi önnur svör en „af því bara“. Þau svör hafa komið frá hæstv. ráðherra. Hann hefur ekki fært skilmerkileg rök fyrir máli sínu eins og við útskýrum rækilega í greinargerðum og ég nenni ekki einu sinni að fara yfir það. Ég vil bara málefnalega umræðu og reyna að finna sátt. Ef menn vilja ekki sátt verður hv. þm. (Forseti hringir.) Hanna Birna Kristjánsdóttir að skýra út fyrir mér af hverju hún vill ófrið þegar friður er í boði.