145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[13:31]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Síðan ætla ég vitanlega að mótmæla því sem hv. þingmaður sagði og er alrangt eins og svo margt í umræðunni sem staðið hefur yfir í langan tíma, þ.e. að ekki verði færð rök fyrir þessum breytingum og síst að færð hafi verið rök fyrir því að hann nefndi sérstaklega eitthvað sem hann kallaði held ég tvívirkni eða það sem verið var að gera á tveimur stöðum. Það hef ég talið upp í ræðu hér og hefur jafnframt verið kynnt fyrir utanríkismálanefnd, að sjálfsögðu. Nægir að nefna að það eru tveir sem sinna fjármálum, kynningarmálum, árangurseftirliti, tvöföldum gagnagrunnverki, það eru tvöföld samskipti við sömu aðila í útlöndum o.s.frv. Þar er af nógu að taka.

Varðandi þær breytingartillögur sem hér hafa komið fram, sem þingmaðurinn kallar sáttaleið, þá ganga þær einfaldlega ekki upp. Í fyrsta lagi samræmist það ekki lögum um ráðuneytisstofnun að ráðuneytisstofnun skuli byggð á lagagrein og gerð að lögum. Þar segir einfaldlega að ráðuneytisstofnun séu þau verkfæri sem ráðherra hafi innan þeirrar stjórnsýslueiningar sem þegar séu innan ráðuneytisins. Ekki er því gert ráð fyrir að slík stofnun sé sett með sérstökum lögum, heldur er það einfaldlega ákvörðun sem er á valdi ráðherra.

Síðan er mikilvægt að taka fram að í kynningu með þessari hugmynd að ráðuneytisstofnun er sagt sérstaklega að þetta sé hugsun og möguleiki fyrir ráðherra á hverjum tíma til hagræðingar og samhæfingar í ráðuneyti sínu, ekki til þess að búa til sérstaka stofnun í ráðuneytinu sem í raun er lagt til í breytingartillögunum. Í öðru lagi er lagt til að þessi stofnun annist tvíhliða þróunarsamvinnu og miði í rauninni að því að viðhalda núverandi fyrirkomulagi. Það er algjörlega andstætt markmiðum þessara laga að halda áfram með tvöfalt system.

Síðan er einnig lagt til að skipaður verði sérstakur forstöðumaður sem er embættismaður og heyri beint undir yfirstjórn ráðuneytisstjóra. Áfram er gert ráð fyrir að þetta sé aðskilið, þetta sé ekki samtvinnað og sé ekki unnið saman á einum stað.

Í fjórða lagi er hér talað um að starfsmenn verði ekki flutningsskyldir. (Forseti hringir.) Það byggir á einhverjum miklum misskilningi, því að hluti starfsmanna ÞSSÍ í dag er flutningsskyldur og töluverður hluti er meira að segja flutningsskyldur nú þegar. (Forseti hringir.) Fyrirgefðu forseti. Ég lýk máli mínu síðar.