145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[13:34]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég ætla ekki að elta ólar við skæting ráðherrans, ég ætla að reyna að ræða þetta málefnalega við hann. Fyrst ætla ég að segja eitt og ég ætla líka að beina því til hv. formanns utanríkismálanefndar: Það er ansi klént af löggjafanum að koma hingað og segja að í lögunum um Stjórnarráðið sé ekki gert ráð fyrir að séu sett sérlög heldur sé þetta bara ákvörðunarvald ráðherra. Það getur vel verið, en eins og ég hef áður sagt á fundum utanríkismálanefndar erum við löggjafinn. Þar er gert ráð fyrir því að svona stofnanir séu til, þar er dregið upp forskrift, jafnvel skipurit af því með hvaða hætti það eigi að vera. Ef það er til lausnar á þessari deilu að þingið taki af skarið og segi við hæstv. ráðherra: Þú átt að gera þetta svona, þá er það bara fullkomlega í valdi okkar og hæstv. ráðherra kemur það í sjálfu sér ekki neitt við. Það er þingsins að gera þetta. En hæstv. ráðherra gæti líka stigið langt skref til sátta í málinu með því að segja að hann ætli sér að gera það.

Sá texti sem hæstv. ráðherra las og hefur greinilega ekki skrifað sjálfur er byggður á einhvers konar misskilningi. Í greinargerð með því frumvarpi sem við samþykktum hérna, og ég líka með hæstv. ráðherra í vor, og leiddi til laga sem tóku gildi í júlí, er tekið sérstaklega fram að þegar stofnun fær stöðu ráðuneytisstofnunar í stað sérstaks stjórnvalds þarf slík breyting ekki að hafa í för með sér umfangsmiklar breytingar á skipulagi, verkefnum eða ytri ásýnd viðkomandi stofnunar. Það kemur líka fram þar að stofnun dragi nafn af starfslegum tengslum sínum við ráðuneytið.

Hæstv. ráðherra sagði sjálfur að hann ætlaði að halda áfram að nota hið enska orð ICEDA yfir verkefnin erlendis. Er eitthvað að því að nota það líka á íslensku? Þetta er sáttaleið. Hví í ósköpunum reyna menn ekki að ræða það á (Forseti hringir.) málefnalegum grunni?