145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[13:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú einmitt vandinn við þessa umræðu fram að þessu í það minnsta að hún hefur lítið verið rædd á málefnalegum grunni, þetta eru aðallega einhver hnútuköst, dylgjur og eitthvað slíkt af hálfu hv. þingmanns og fleiri svo sem. Það er alveg ljóst að miðað við þau lög sem gilda í dag um ráðuneytisstofnanir á slíkt ákvæði ekki heima í lögum um slíka stofnun. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, auðvitað getur Alþingi sett lög um alla skapaða hluti. En hérna er um að ræða stofnun sem á þegar ákveðinn stað í lögum. Þar er útskýrt hvernig hún verður til og, eins og hv. þingmaður las alveg réttilega upp, hvernig menn horfa á hana, hvernig skipulagið er og svoleiðis. Til dæmis getur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra búið til ráðuneytisstofnun í sínu ráðuneyti á morgun, telji hann það verkinu til farsældar. Það þarf enga lagabreytingu til þess, alls enga. (Gripið fram í.) Þetta er byggt (Gripið fram í.) á misskilningi hjá hv. þingmanni.

Mig langar aftur að benda á, af því hv. þingmaður talar hér um að það vanti málefnalega umræðu, að sú hugmynd sem flytjendur þessarar tillögu virðast hafa, að starfsmenn eigi ekki að geta verið flutningsskyldir, að mér finnst menn ganga mjög langt í því að vilja banna að svo sé þar sem nú þegar eru ákveðnir starfsmenn flutningsskyldir. Ég hefði viljað frekar að menn hefur þá valkost, ef það er nokkur möguleiki í systeminu að menn geti valið. Ég hef marglýst því yfir í þessum ræðustól.

Gallinn við þessa ágætu tilraun hv. þingmanns og minni hlutans í þessu máli er að tillögurnar ríma ekki við markmið frumvarpsins sem verið er að leggja fram, þ.e. að sameina stofnanir í eina, að sameina þróunarsamvinnu á einn stað, gera hana skilvirkari, gera hana betri, vinna betur, stækka hópinn sem vinnur að þessum málum, nýta betur það hugvit og þann mannauð sem þarna er. Tillögurnar ríma bara alls ekki við það. Þess vegna getur þetta, því miður, hv. þingmaður, ekki talist einhver sáttaleið þegar hún gengur þvert á markmið frumvarpsins.