145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[13:40]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm Össuri Skarphéðinssyni fyrir ræðuna og það hve vel hann fór yfir þær breytingartillögur sem við í minni hluta hv. utanríkismálanefndar leggjum til hér við 3. umr. Mér fannst þingmaðurinn spyrja margra mjög góðra spurninga og velta ýmsu upp, m.a. um sérstakar ráðuneytisstofnanir, breytingarnar á stjórnarráðslögunum og hvernig þetta allt saman tengist. Ég varð kannski fyrir svolitlum vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra hvað varðar þessi efni.

Mig langar í þessu fyrra andsvari mínu að ræða aðeins um vinnu nefndarinnar við hv. þingmann því að eitt af því sem hefur verið talsvert mikið rætt hérna er það hversu langur tími hafi farið í umræðurnar sem að mínu viti er bara eðlilegt vegna þess að það hefur verið alveg bullandi ágreiningur um þetta mál þó að hér komi minni hlutinn með tillögu til sátta. Hefur nefndin að mati hv. þingmanns, sem hefur allmiklu meiri þingreynslu en ég, fjallað óeðlilega mikið um þetta mál? Er hv. þingmaður sammála mér um að í vinnu nefndarinnar milli 2. og 3. umr. hafi verið haldnir alveg gríðarlega góðir og mikilvægir fundir sem hafa í rauninni tekið (Forseti hringir.) málið á dálítið annan stað eins og mun líklega sjást staður í umræðunni í dag?