145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[13:47]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Það var bara einn ljóður á ágætu máli hv. þingmanns. Hæstv. ráðherra hefur aldrei sagst vilja þverpólitíska sátt um málið. Mig rekur ekki minni til þess. Allir aðrir forverar hans hafa hins vegar sagt það, lagt sig í líma, gjörbreytt frumvörpum og þingsályktunartillögum sem hingað koma. Ég lagði fram nokkur mál sem vörðuðu þróunarsamvinnu. Þau voru öll samþykkt nánast einróma og gerðar á þeim töluverðar breytingar. Ég var spurður í þingsal yfir þetta púlt hvernig mér litist á tilteknar breytingar. Efnislega var svar mitt að mér kæmu þær varla við. Ef þetta væri niðurstaða þingsins sætti ég mig við hana. Þannig var það.

Varðandi síðan feril málsins er það þannig, og menn mega ekki gleyma því, að í fyrra var þetta mál þrautrætt í utanríkismálanefnd. Ég taldi þá að það mundi koma hingað til afgreiðslu. Það gerðist ekki og var ekki á mínu valdi eða vegna einhverra hótana stjórnarandstöðunnar þá. Það virtist bara ekki vera rosalegur stuðningur við það. Kannski óttuðust menn að það mundi setja mál hér í uppnám og kann vel að vera.

Síðan kemur nýtt ár og þá segja þingsköp að málið eigi að fá nýja rannsókn. Ef allir þingmenn sitja áfram gegnir kannski öðru máli. Í þessu tilviki voru þrír nýir fulltrúar. Tveir þeirra kváðust afsala sér rétti sínum til að fá hina ítarlegu umfjöllun, einn var úr hópi stjórnarandstöðunnar og gerði það ekki, en ég mundi segja að gróflega hefði verið broti á rétti þess þingmanns. Um þetta er órækur vitnisburður í fundargerðum nefndarinnar þar sem fram kemur að á einum tilteknum fundi þar sem formaður nefndarinnar var fjarstaddur er því lýst yfir af þeim sem stýrði fundi að málið yrði afgreitt á þeim fundi. Sömuleiðis kemur fram að ekki var gefin heimild til að fara yfir allar umsagnir (Forseti hringir.) og ekki var farið yfir tvær þeirra. Það hefur aldrei gerst í 25 ára sögu þings sem ég þekki og enginn starfsmanna þingsins kannast við það heldur. En það er ekki aðalatriði máls.