145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:05]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson þarf ekki að hlífa mér en ég þakka honum hugulsemina samt sem áður. Það er rangt og ég fyrirbýð honum að saka mig um að brjóta þingsköp. Hins vegar blekkti hv. þm. Össur Skarphéðinsson mig á fundi nefndarinnar á fimmtudegi, hann man það örugglega eins vel og ég, og taldi mér trú um, í krafti reynslu sinnar, vitandi um reynsluleysi mitt, að ég mundi brjóta þingsköp. Ég man ekki greinina en held að það hafi verið 15. gr. Ég fékk síðan lögfræðiálit og varaði mig á þessu. Ég bakkaði svo að ég mundi örugglega ekki brjóta nein þingsköp þannig að ég hef ekki gert það. Ég mundi gjarnan vilja vita hvað þingmaðurinn á við vegna þess að þetta er rangt.

Fundarboð um aukafund nefndarinnar á föstudegi var sent út milli fjögur og fimm á fimmtudeginum. Þangað voru boðaðir gestir sem þingmaðurinn sjálfur, Össur Skarphéðinsson, hafði óskað eftir að fá til fundar við nefndina. Hv. þingmaður óskaði eftir að fundur yrði afboðaður um áttaleytið næsta morgun. Hann hafði tæpan sólarhring til að óska eftir að fundur yrði afboðaður. Hann gerði það þegar sú sem hér stendur var á leiðinni á fundinn. Eins og þingmaðurinn veit ekur sú sem hér stendur langar vegalengdir til vinnu daglega þannig að hún er ekki í símanum að skoða skilaboð á þeim tíma heldur sér þau korteri fyrir fund þegar gestirnir eru á leiðinni til fundarins. Það hefði verið alger dónaskapur gagnvart gestum nefndarinnar að afboða fundinn með svo skömmum fyrirvara þegar þeir voru líka búnir að segja að þeir gætu ekki mætt á öðrum tíma. Ég hafna þessum dylgjum þingmannsins.