145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:09]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er afar áhugavert að hlusta á þingmanninn. Hann lítur á sjálfan sig sem bjargvætt, hafi bjargað heiðri mínum og annarra með einhverjum klókindum. Ég tel svo ekki vera. Ég hafna því enn og aftur að ég hafi brotið þingsköp. (Gripið fram í.) Það er rangt.

Tilgangurinn er alls ekkert dularfullur. Ég fór ágætlega yfir það í ræðu minni að þær þjóðir sem við berum okkur helst saman við eru með þessi mál inni í sínum utanríkisráðuneytum. Það er ekkert einkennilegt við það og enginn illur hugur býr þar að baki, þvert á móti. Við viljum að það fjármagn sem við setjum í þennan málaflokk sé betur nýtt. Hæstv. utanríkisráðherra fór ágætlega yfir það líka, (Gripið fram í.) að það væri ekki tvöfalt tölvukerfi, tvöfaldur gagnagrunnur og tvöföld stjórn úti um allt.

Ég vil nefna það hér líka að á milli 2. og 3. umr. á fundum nefndarinnar, þegar hv. þingmaður var ekki viðstaddur heldur varamaður hans, hv. þm. Kristján Möller, að flestar spurningar þingmannsins sneru að starfsmannamálum. Ég skil það mætavel, en honum varð tíðrætt um hvort starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar fengju sömu mannaforráð og sömu starfstitla þegar þeir væru fluttir inn í ráðuneytið, eins og það skipti einhverju máli. Þetta á ekki að snúast um einstaklinga, þetta á ekki að snúast um hv. þm. Össur Skarphéðinsson eða þá sem hér stendur eða hæstv. ráðherra. Þetta snýst um að við gerum vel í þeim þróunarsamvinnuverkefnum sem Ísland tekur þátt í. Mér finnst að við eigum að einbeita okkur að því að svo komnu máli.