145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:11]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli mjög eindregið gegn því að það frumvarp sem við ræðum hér í 3. umr., þ.e. frumvarp til laga um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands og fleira skipulag, verði samþykkt í þeirri mynd sem það liggur fyrir, sem mundi fela í sér að Þróunarsamvinnustofnun yrði lögð niður og verkefni hennar flutt í utanríkisráðuneytið. Í þeirri breytingu felast að mínu mati ýmsar hættur sem bæði ég og aðrir fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa ítrekað bent á við umræðu málsins, bæði nú í vetur og í fyrra og við 1. og 2. umr. þessa máls. Ég er þeirrar skoðunar að ástand mála í heiminum sé með þeim hætti að það sé alveg gríðarlega mikilvægt að hlúa alveg sérstaklega að þróunarsamvinnuverkefnum sem eru til þess fallin að styrkja innviði fátækra landa. Ég tel að það eigi að vera eitt af meginmarkmiðunum með þróunarsamvinnu. Þess vegna er ég líka þeirrar skoðunar að fyrirkomulag þróunarsamvinnunnar skipti miklu máli til þess að góður árangur náist. Rannsóknir hafa sýnt að ef að henni er staðið með faglegum hætti bætir hún lífskjör, heilsu og menntun á þeim svæðum þar sem hennar nýtur við. En rannsóknir hafa hins vegar einnig sýnt að gæði og afköst þróunarsamvinnu minnka þegar ríki láta eigin hagsmuni, til dæmis viðskiptahagsmuni eða pólitíska hagsmuni, hafa áhrif á úthlutun framlaga til þróunarsamvinnu. Bæði gömul og ný reynsla annarra þjóða hefur sýnt að sambýli þróunarsamvinnu og utanríkisviðskipta innan eins og sama ráðuneytisins getur skapað ákveðinn freistnivanda og getur þá með tímanum dregið úr gæðum starfsins.

Þó er ekki þar með sagt að það muni gerast á Íslandi en ég hef áhyggjur af því að með því að koma málunum svona fyrir aukist líkurnar á því að þetta gerist. Ég hef reyndar farið yfir það í fyrri ræðum mínum. Það sem vekur mér enn meiri ugg um fyrirkomulag þróunarsamvinnunnar er að á milli 2. og 3. umr. um þetta mál ræddum við, og afgreiddum síðan í gær, frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016, en í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar er svolítill kafli þar sem fjallað er um þróunaraðstoð. Mér finnst hann því miður ekki bera þess merki að þar sé sérstaklega mikill áhugi á þessum málaflokki. Þar er gefið í skyn að framlög til þróunarsamvinnu hafi hækkað um 50% frá árinu 2011. Það er vissulega rétt að í krónum talið hefur framlagið hækkað. Það er hins vegar svo að framlög Íslands eru ekki nema 0,21% af þjóðarframleiðslu meðan þjóð með okkar þjóðarframleiðslu og ríkidæmi ætti að leggja til 0,7% af þjóðarframleiðslu sinni í þróunarsamvinnu. Í stað þess að meiri hluti hv. fjárlaganefndar leggi til leiðir til þess að við gætum hækkað þetta hlutfall, sem er nú allt of lágt, er látið í veðri vaka að verið sé að hækka framlögin og svo fundin leið — ekki hjáleið því að það er vissulega rétt að það má fara þá leið — að telja með útgjöld vegna hælisleitenda og flokka það sem þróunarsamvinnu. Ég er alfarið á móti þeirri leið en það er ekki bannað að gera það. Með því væri hægt að reikna það út að við settum 0,25% af þjóðartekjum okkar í þróunarsamvinnu sem og útgjöld vegna hælisleitenda.

Þegar ég les þetta tvennt saman, það frumvarp sem hér liggur fyrir og það sem lesa má um í nefndaráliti meiri hlutans, verð ég ekki rólegri gagnvart því hvort hér sé fyrst og fremst verið að hugsa um hvað sé málaflokknum þróunarsamvinnu fyrir bestu. Og vegna þess að fram kom í orðaskiptum milli hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur og Össurar Skarphéðinssonar, þá er það einmitt það sem ég hef haft einna mestar áhyggjur af, þ.e. tengslunum milli þróunarsamvinnu og utanríkismála. Í textanum, athugasemdum með lagafrumvarpinu sjálfu, er millifyrirsögn sem heitir hreinlega Sterkari tengsl milli þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála. Ég hef áhyggjur af þessu máli og viðurkenni það hér og nú. Það kom ítrekað fram hjá gestum sem komu fyrir nefndina að það fæli í sér ákveðnar hættur að styrkja tengslin milli þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála. Þeir sögðu að hætta væri á að diplómatískar áherslur og viðskiptapólitískir hagsmunir blönduðust inn í þróunarsamvinnu með þeim hætti að framlagsríki færu að reka hana með eiginhagsmuni að leiðarljósi en ekki hagsmuni fátækra ríkja eingöngu. Svo var bent á að enn meiri hætta væri á því þar sem þróunarsamvinna væri rekin undir sama þaki og utanríkisviðskipti viðkomandi ríkis.

Þetta hefur verið meginþunginn í gagnrýni minni á þetta mál, en það eru vissulega fleiri atriði sem ég hef haft áhyggjur af og lýst í ræðum mínum. Ég hef áhyggjur af því að þekkingin geti útvatnast ef starfsmennirnir verða flutningsskyldir. Ég skal ekki hafa neitt á móti því að starfsmenn sem vinna að þróunarsamvinnu séu flutningsskyldir innan málaflokksins, þ.e. ef þeir eru flutningsskyldir í öðrum þróunarverkefnum. Ég hef hins vegar áhyggjur af því ef þeir verða flutningsskyldir í utanríkisþjónustunni almennt og hef nefnt það hér að ég sjái fyrir mér að það gæti orðið einhvers konar stökkpallur fyrir fólk; það byrjar til dæmis í Malaví og fer síðan til Evrópu og þannig vinnur það sig upp í goggunarröð utanríkisþjónustunnar. Jafnframt kom skýrt fram hjá gestum nefndarinnar ótti við að fagþekkingin og reynslan sem byggst hefur upp innan ÞSSÍ glatist.

Það áhyggjuefni er reifað margoft í skýrslu Þóris Guðmundssonar sem hér hefur títt verið nefnd og er sögð liggja frumvarpi ráðherrans til grundvallar. Það kom líka vel fram í glærukynningu sem mér skilst að hv. utanríkismálanefnd hafi fengið á síðasta ári, ég var ekki í nefndinni en fékk aðgang að þeim glærum og þar kom það vel fram.

Þróunarsamvinna er málaflokkur sem ég tel mikilvægt að um sé almenn og breið pólitísk samstaða. Þannig hefur það verið hér á landi hingað til. Ég er þeirrar skoðunar að farsælast sé að halda stofnanaramma þróunarsamvinnu í óbreyttu horfi. Ef ég fengi ein að ráða mundi ég vilja að ÞSSÍ mundi starfa áfram í núverandi formi en ég átta mig líka á að það er ekki í boði. Og vegna þess að ég tel svo mikilvægt að reyna að halda pólitískri sátt um málið og ekki síst nú á tímum þegar mjög miklar hnattrænar breytingar eru og þar sem öflug þróunarsamvinna er gríðarlega mikilvæg og líklegt að verði enn meiri á komandi árum, flyt ég ásamt öðrum fulltrúum minni hlutans í hv. utanríkismálanefnd hér breytingartillögu sem ég tel að ætti að geta verið grundvöllur til sátta um málið. Breytingartillöguna er að finna á sérstöku þingskjali. Ég vil hvetja hv. þingmenn til að kynna sér hana. Stærstu drættirnir í henni felast í því að Þróunarsamvinnustofnun verði áfram til sem sérstök starfseining sem væri þá flutt í utanríkisráðuneytið í formi ráðuneytisstofnunar líkt og heimild er fyrir. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur farið ágætlega yfir það að heimild er fyrir slíku í lögum um Stjórnarráð Íslands.

Tillagan tekur ekki til míns stærsta áhyggjuefnis sem er meiri nánd milli þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála. Ég átta mig fyllilega á því. En ég átta mig líka vel á því að ef ná á sátt þurfa allir að slá af kröfum sínum. Ég er tilbúin að bíta á jaxlinn varðandi þetta vegna þess að mér finnst annað svo mikilvægt atriði nást fram með breytingartillögu minni hlutans, þ.e. að við leggjum til að starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands verði undanskildir lögum um flutningsskyldu. Ég er alveg til í að ræða það hér áfram hvort við viljum hafa þá flutningsskylda innan þróunargeirans. Ég er opin fyrir því að ræða það. Mér hugnast hins vegar illa að hafa starfsmenn almennt flutningsskylda innan allrar utanríkisþjónustunnar. Ég er tilbúin að slá af minni draumsýn um hvernig verkefnið eigi að vera og að það eigi að vera óbreytt. Þess vegna tek ég þátt í að flytja þessa breytingartillögu sem ég vona svo sannarlega að við eigum eftir að fá meiri umræðu um á eftir og vonandi að endingu að geta hreinlega fallist á hana.