145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:26]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir framlag hennar hér í dag í þessu efni. Hún minntist á fjárframlögin til þróunarmála hér á landi. Það eru núna 0,21% af vergri þjóðarframleiðslu. Menn guma sig mikið af því að krónutalan sé há en þá ber að hafa í huga að öll þjóðarframleiðsla er að aukast. Ef þetta helst í 0,21% mun það aukast eitthvað í krónutölu, en það er almennt samkomulag í þessum bransa, ef þannig má að orði komast, að miða ekki við krónutölu, ekki við pund hjá Bretum eða danskar krónur hjá Dönum, heldur hlutfall af þjóðarframleiðslu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það hafi ekki verið rétt skilið hjá mér að hún sýni afskaplega mikla víðsýni og góðvild þegar hún fer að leggja framlög, sem við ætlum að leggja til hælisleitenda og flóttamanna í því átaki sem við erum í núna, saman við það sem við ætlum að leggja til þróunarsamvinnu, og þá komumst við hugsanlega upp í 0,25%, er það ekki? Svo það sé rétt skilið hjá mér. Og er þar víðsýni og góðvild þingmannsins í hæsta máta mikil, finnst mér.