145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:35]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það hefur verið gert nokkuð úr því í þessum þingsal að sú umræða sem farið hefur fram um breytingar á Þróunarsamvinnustofnun sé af einhverjum annarlegum ástæðum. Ég vil mótmæla því. Þetta er mjög merk stofnun. Hún hefur unnið gott og mikið starf. Ég er alfarið á móti þeim tillögum sem liggja hér fyrir um að flytja stofnunina inn í ráðuneytið. Ég mun koma að því síðar af hverju það er helst.

Ég kann mjög illa að meta það þegar ég kem í ræðustól til að tjá skoðanir mínar, hvort sem það er á ríkisfjármálum eða Þróunarsamvinnustofnun, að vera sökuð um að ég geri það af einhverjum öðrum ástæðum en þeim að ég er kjörin til þings og vil að skoðanir mínar komist á framfæri. Þá verð ég í framhaldi af því að undra mig mjög á þeirri ræðu sem haldin var fyrr í dag þegar varaformaður utanríkismálanefndar talaði hér. Ég hef aldrei séð hana hérna við umræðuna áður, ekki einu sinni séð hana í þingsal. Ég held að ég fari rétt með að hún hafi ekki talað um þetta efni áður í þingsal. Ég held að eini maðurinn …(Utanrrh: Hún var allan tímann í þingsal. Hvernig dettur þér í hug að brigsla þingmönnum um svona bull?) Vill hæstv. ráðherrann koma hér í ræðustól, eða hvað? (Utanrrh: Bara biðja þingmanninn að vera ekki að bulla.) Biðja þingmanninn að vera ekki að bulla? Er það það sem hæstv. ráðherra hefur til málanna að leggja þegar fólk er í ræðustól? Er hann orðinn svo pirraður á að það sé rætt um þetta vonda frumvarp hans? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

(Forseti (RM): Ég vil biðja þingmenn um að flytja ræður og vera ekki í samtölum úr ræðustól.)

Nei, þá er kannski rétt, virðulegi forseti, að biðja hæstv. ráðherra að vera ekki að tala við mig þegar ég er í ræðustól.

Virðulegi forseti. Varaformaður utanríkismálanefndar rakti mikinn málatilbúnað um þetta mál og síðan sagði hún að fólk hefði komið í ræðustól mikið og oft og sumir talað af þekkingu og aðrir ekki. Mér finnst þetta undarlegt. Fyrir utan að við þingmenn sem tökum til máls erum sökuð um að gera það af einhverjum annarlegum ástæðum en ekki af því að við höfum áhuga á efninu eða eins og í þessu tilfelli viljum koma því mjög eindregið á framfæri að við séum mótfallin því frumvarpi sem hér liggur frammi, þá eigum við líka að sitja undir því að okkur séu gefnar einkunnir. Ég átta mig alveg ekki á því á hvaða skala einkunnirnar eru gefnar. En þetta finnst mér mjög einkennilegt og sannast að segja óskemmtilegt líka.

Það sem liggur fyrir er það sem hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir nefndi sem svo að samhæfa ætti utanríkisþjónustuna og þróunarsamvinnuna, þetta væri gert til þess. Það hefur oft komið fram að þetta er ekki gert til að hagræða. Það hefur komið fram hjá hæstv. ráðherranum líka, held ég, að það liggi ekki hagræðing í þessu. Það hefur komið fram í umræðunni og ég held líka að hæstv. ráðherra hafi sagt að það væru svo sem ekki gerðar neinar athugasemdir við störf Þróunarsamvinnustofnunar, en samt sem áður þarf að samhæfa þetta. Þá virðist liggja beinast við að álykta sem svo að starfsmennirnir sem núna eru í ráðuneytinu og í hinni almennu utanríkisþjónustu og starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar eigi að fara allir í eina púllíu, ef ég má orða það svo, og ganga í störf hver annars.

Nú er það svo að það að starfa í utanríkisþjónustunni, hinni almennu diplómasíu sem svo er kölluð, er sérstakt fag. Það er eiginlega fag í því, held ég en ég hef svolítið fylgst með starfi utanríkisþjónustunnar og fólki sem þar starfar, að vera generalistar. Það er sérstakt fag að vera generalisti. En það er einmitt ekki það sem á við þegar talað er um þróunarsamvinnu. Það er alveg sérstakt fag að sinna þróunarsamvinnu og gera það á þann veg að það sé ljóst að þróunarsamvinnan sé samvinna. Mér finnst það sýna sig svolítið í því hvernig orðanotkun okkar hefur breyst í tímans rás. Einu sinni var þetta alltaf kallað þróunarhjálp, nú er þetta kallað þróunarsamvinna. Það er mikill munur á. Það er unnið í þróunarlöndunum með fólkinu til að reyna að koma aðstæðum þar sem þær eru verri en hjá okkur til betri vegar. Hverju höfum við beitt okkur fyrir sérstaklega? Við höfum beitt okkur fyrir að fólk hafi aðgang að vatni, við höfum beitt okkur fyrir menntun, við reynum að hjálpa konum. Konur skipta náttúrlega alltaf mjög miklu máli en það virðist vera þannig að þær skipti ekki síður máli í hinum frumstæðari þjóðfélögum ef ég má orða það svo, þar sem þær sjá um allt, allt sem er heima fyrir, á meðan karlarnir eru kannski einhvers staðar annars staðar. Við höfum lagt áherslu á að vinna með þessu fólki þannig að líf þess geti orðið bærilegra. Þetta er allt öðruvísi starfsemi en er unnin í hinni almennu diplómasíu. Þess vegna er ég á sömu slóðum og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir sem segir: Ég er tilbúin til að ræða hvort það eigi að vera flutningsskylda innan þróunarsamvinnunnar, að fólk flytjist þar á milli verkefna, væntanlega er sama grunnþekkingin sem þarf að vera fyrir hendi í þeim verkefnum. Ég get fallist á það. Mér finnst alveg mega ræða hvort fólk eigi að geta flust á milli verkefna innan þróunarsamvinnuverkefnanna. En alls ekki úr hinni almennu diplómasíu inn í þróunarsamvinnuna.

Síðan er maður náttúrlega enn þá nokkuð óttasleginn yfir því hvort það geti virkilega verið, ég vil samt varla trúa því að svo sé, að menn séu með það á bak við eyrað að hægt sé að fara að blanda viðskiptahagsmunum landsins inn í þróunarsamvinnuna. Það yrði væntanlega gert þannig að áhersla yrði lögð á einhver atriði þar sem íslensk fyrirtæki eiga hagsmuna að gæta og reynt að tvinna þannig saman viðskiptalega hagsmuni og þróunarsamvinnuna. Þetta var til og þótti ekkert voðalega vond danska fyrir allnokkru síðan en eftir því sem ég best veit og þekki til þykir þetta ekki fínt í dag. Þannig að ég vil alls ekki trúa því að svo sé.

Mig langar að nefna breytingartillögu meiri hlutans við frumvarpið, það er ein breytingartillaga frá honum, og ég verð að segja að ég gleðst yfir henni. Hún kemur inn á eitt atriði sem ég hef nefnt ítrekað þegar ég hef talað um þessi mál. Mér hefur þótt einkennilegt að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að í samstarfsnefnd um þróunarmál, ég held að hún heiti það, eigi að sitja fjórir menn tilnefndir af Alþingi. Ég hef undrað mig á því og velt fyrir mér hvort það ættu að vera þrír frá meiri hluta og einn frá minni hluta eða hvernig það ætti að vera. En nú hefur meira að segja meiri hlutinn lagt til að þessu verði breytt og það verði einn frá hverjum þingflokki. Það finnst mér ánægjulegt. Ég þakka meiri hlutanum fyrir það þótt ekki séu þau tilbúin til að gera annað.

Það liggur fyrir mjög merk breytingartillaga frá minni hluta utanríkismálanefndar. Hún er í þeim anda að reyna að halda því sem hefur verið lögð áhersla á með þessi verkefni allt þangað til núna, að það ríki pólitísk sátt, að menn séu pólitískt nokkuð sammála að minnsta kosti um hvernig hlutum er fyrir komið, stofnanalega og á annan hátt, um þessi mikilsverðu mál. En nú liggur frumvarp utanríkisráðherrans fyrir og breytingartillaga minni hlutans gengur út á það að stofnunin verði ráðuneytisstofnun, hún sé sem sagt alveg klárlega í ráðuneytinu og haldi sér þar sem ráðuneytisstofnun, og, og þá komum við aftur inn á flutningsskylduna, að starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar séu ekki flutningsskyldir. Þetta er nefnilega grundvallaratriði. En þá kemur hæstv. ráðherrann og segir: Það er ekki hægt að fallast á þetta og taka í þessa útréttu sáttarhönd, sem hann nefndi nú ekki svo en ég ætla að kalla svo, af því að það stríðir gegn meginsjónarmiðum frumvarpsins. Meginsjónarmið frumvarpsins er sem sagt að rjúfa það samkomulag sem hefur verið hér á landi um hvernig þessum málum er fyrir komið og var stofnað til fyrst af Ólafi heitnum Jóhannessyni, fyrrverandi formanni Framsóknarflokksins, held ég að ég fari rétt með. Nú vilja menn ekki ganga áfram í samkomulagi með þetta.

Það er rétt að málið hefur verið rætt lengi og ítarlega. En það er ekki vegna þess að menn geri það til að tefja tímann. Menn gera það vegna þess að okkur er mikið niðri fyrir. Mér er mjög mikið niðri fyrir því ég hef áhyggjur af því að almennu samkomulagi um þennan viðkvæma og mikilsverða málaflokk sé hent út um gluggann. Þannig er það, virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.